Íslensir bændur eru margir ósáttir við samninga Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur. Jón Magnús Jónsson, varaformaður Félags kjúklingabænda, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að áhrif breytinganna geti orðið það mikil að innlendir framleiðendur neyðist til að bregða búi. Hann segir samninginn „hálfgerðar náttúruhamfarir“ og segist ekki vera viss um að íslenskir stjórnmálamenn hafi vitað hvað þeir hafi verið að semja um.
Í frétt blaðsins er einnig rætt við svínabónda sem lýsti yfir sömu áhyggjum í sinni grein. Í frétt RÚV um liðna helgi var haft eftir Sindri Sigurgeirssyni, formanni Bændasamtakanna, að samningurinn hafi verið gerður án samráðs við bændur.
Samningarnir við ESB fela í sér að Ísland fellir niður tolla á yfir 340 nýjum tollskrárnúmerum og lækkar tolla á yfir 20 öðrum, að því er fram kom í tilkynningu frá ráðuneytinu í síðustu viku. Auk þess er samið um að báðir aðilar auki verulega tollfrjálsa innflutningskvóta m.a. fyrir ýmsar kjöttegundir og osta, sem munu koma til framkvæmda á tilteknum aðlögunartíma. Lækkun vöruverðs vegna samninganna getur numið tugum prósenta.
Það sem bændur óttast er því aukin samkeppni erlendis frá.
Á móti fær Ísland verulega hækkun tollfrjálsra innflutningskvóta fyrir skyr, smjör og lambakjöt auk nýrra kvóta fyrir alifugla- og svínakjöt og ost. Til að mynda fá íslenskir framleiðendur Skyrs að flytja út tíu sinnum meira en áður inn á markaði í Evrópusambandslöndum.
Samningarnir fara nú í lögfræðilega yfirferð og lokafrágang, áður en þeir verða formlega lagðir fram til samþykkis ESB og íslenskra stjórnvalda.