Inga Sæland formaður Flokks fólksins gagnrýndi á þingi í gær, undir liðnum störf þingsins, að atvinnuveganefnd hefði einungis fjallað einu sinni um frumvarp hennar til breytinga á lögum um dýravelferð, þar sem bann við blóðmerahaldi á Íslandi er lagt til.
Hún benti á að um frumvarpið hefðu komið fram 129 umsagnir til þingsins, sem sé með því meira sem sjáist. Umsagnarfrestur rann út þann 17. janúar og Inga sagði að veita ætti þeim fjölmörgu sem sendu inn umsagnir tækifæri til þess að fylgja þeim eftir við atvinnuveganefndina. Hins vegar hefði málið einungis verið einu sinni á dagskrá atvinnuveganefndar, sem Stefán Vagn Stefánsson þingmaður Framsóknarflokks leiðir.
Inga sagði „bágt að finna það hversu veikur maður er í stjórnarandstöðu þó maður sé fanginn af vilja og vinni eins og ég veit ekki hvað – alvöru hestur – sem dregur alvöru þunga á eftir sér til að bæta stöðuna í samfélaginu“.
Búin að skipta sér inn í nefndina
Flokksformaðurinn ætlar sér þó greinilega að reyna að koma málinu frekar á dagskrá í atvinnuveganefnd, því við upphaf þingfundar í gær tilkynnti Birgir Ármannsson forseti Alþingis að Flokkur fólksins ætlaði að skipta um fulltrúa í nefndinni.
Inga sjálf kemur inn sem aðalmaður í stað Tómasar A. Tómassonar þingmanns flokksins, sem verður varamaður í nefndinni.
Segir hagsmunaaðila eflaust þrýsta á um að málið verði svæft
Inga gerir þetta mál að umtalsefni í pistli sínum í Morgunblaðinu í dag. Þar segir hún að fyrir atvinnuveganefnd liggi nú um 10 þingmál, sem þyki með minna móti og málafjöldinn geti því ekki réttlætt að „þetta mikilvæga mál fái ekki umfjöllun fyrir atvinnuveganefnd“.
Í pistli sínum segir flokksformaðurinn að hagsmunaaðilar séu eflaust að þrýsta á „þingmenn stjórnarflokkanna og hvetja þá til að svæfa málið í nefnd“ en segir Inga jafnframt að hún voni „að þingmenn taki ekki ákvörðun um þingmál út frá slíkum þrýstingi.“
„Það er sorglegt, ef það er virkilega svo, að ríkisstjórnarflokkarnir heykist á því að taka utan um mál sem þjóðin kallar eftir að fái þinglega meðferð. Ég skora á atvinnuveganefnd og formann nefndarinnar, Stefán Vagn Stefánsson, að taka utan um málið og koma því þannig inn að Alþingi Íslendinga geti fjallað um málið og greitt um það atkvæði,“ skrifar Inga.