Samþykkt var á hluthafafundi Icelandair Group síðdegis í dag að auka hlutafé í félaginu og gefa út áskriftarréttindi í tengslum við samkomulag sem félagið gerði nýverið við bandaríska fjárfestingasjóðinn Bain Capital um að kaupa nýja hluti í félaginu fyrir um 8,1 milljarð króna.
Með þessari samþykkt er það staðfest að Bain Capital verður stærsti eigandi Icelandair Group, með 16,6 prósent hlut. Matthew Evans kemur inn í stjórn Icelandair Group fyrir hönd sjóðsins, en Úlfar Steindórsson víkur úr stjórninni eins og hann hafði sagst ætla að gera, yrði fallist á tillögurnar.
Guðmundur Hafsteinsson verður stjórnarformaður og Nina Jonsson verður varaformaður stjórnar Icelandair Group, samkvæmt tilkynningu frá félaginu.
Bain Capital, sem var meðal annars stofnað af fyrrverandi forsetaframbjóðandanum og núverandi öldundardeildarþingmanninum Mitt Romney, fær áskriftarréttindi fyrir hlutum sem samsvara 25 prósent af heildarfjölda þeirra nýju hluta sem gefnir verða út. Bain Capital á eignarsafn sem er metið á um 130 milljarða Bandaríkjadala.
Þessi heimild gildir í tíu daga frá og með birtingu uppgjörs Icelandair Group fyrir annan ársfjórðung, sem birt var á fimmtudag. „Áskriftarréttindin veita Bain heimild, en ekki skyldu, til kaupa á nýjum almennum hlutum í félaginu á sama gengi á hvern hlut að viðbættum 15 prósent ársvöxtum,“ sagði í tilkynningu félagsins til Kauphallar Íslands fyrir um mánuði síðan.
Sóttu síðast nýtt hlutafé í september í fyrra
Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem Icelandair Group fer í hlutafjáraukningu. Félagið safnaði alls 23 milljörðum króna í útboði sem fór fram í september í fyrra, en það hefur átt í miklum rekstrarvanda um árabil sem jókst verulega þegar kórónuveirufaraldurinn skall á í fyrravor. Fjöldi hluthafa fór yfir ellefu þúsund eftir útboðið og því ljóst að fjölmargir einstaklingar keyptu fyrir litlar fjárhæðir í því.
Alls nam tap Icelandair Group um 45 milljörðum króna á fyrri hluta ársins 2020. Stærstan hluta þess taps, sem nemur 245 milljónum króna á dag, má rekja beint til kórónuveirufaraldursins.
Fyrir lá að félagið átti ekki nægt laust fé til að lifa mikið lengur við óbreyttar aðstæður. Tap Icelandair á árinu 2020 í heild var 51 milljarður króna og á fyrri helmingi ársins 2021 tapaði félagið tæpum 10,9 milljörðum króna.
Flugfélagið sækir sér nú meira hlutafé og hefur væntingar um að flugáætlun félagsins árið 2022 verði um 80 prósent af því sem hún var árið 2019.