Bandarískum tæknifyrirtækjum sem þiggja ákveðnar niðurgreiðslur frá hinu opinbera verður bannað að byggja nýjar hátækniverksmiðjur í Kína næsta áratuginn. Þetta hefur Biden-stjórnin í Bandaríkjunum gefið út, en kvaðirnar tengjast nýjum áætlunum um að auka framleiðslu á hálfleiðurum (e. semiconductors), sem í daglegu tali eru einfaldlega kallaðir tölvukubbar, þar innanlands.
Bandarísk stjórnvöld ætla, samkvæmt löggjöf sem samþykkt var í ágúst, að setja tugi milljarða bandaríkjadala af opinberu fé í það að auka framleiðslu á tölvukubbum í Bandaríkjunum á næstu árum, en í dag eru rúm 10 prósent tölvukubba í heiminum öllum framleidd þar í landi, á meðan að þorri framleiðslunnar fer fram í löndum Austur-Asíu.
Skortur á tölvukubbum eftir að virðiskeðjur hikstuðu eða rofnuðu í kórónuveirufaraldrinum hefur valdið margvíslegum vandræðum hjá framleiðslufyrirtækjum um allan heim. Hafa vandræðin sem af þessu hlutust orðið hvati fyrir ríki til að setja púður í að styðja við framleiðslu á þessum íhlutum, sem eru nauðsynlegir í stór og smá raftæki.
Á vef Guardian er fjallað um þessi mál og haft eftir að Ginu Raimondo, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, að settar verði upp kvaðir til að tryggja að þau fyrirtæki sem hljóta niðurgreiðslu á grundvelli Chips-löggjafarinnar, eins og hún er kölluð, ógni ekki á sama tíma þjóðaröryggi.
„Þeim verður ekki heimilt að nýta þetta fé til þess að fjárfesta í Kína, þau mega ekki þróa hátækni sína í Kína og mega ekki senda nýjustu tækni úr landi,“ er haft eftir Raimondo á vef Guardian.
Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna mun úthluta alls 39 milljarða dollara niðurgreiðslum til fyrirtækja sem setja á fót nýjar tölvukubbaverksmiðjur á bandarískri grundu á næstu árum. Það jafngildir tæpum 5.600 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag.
Þetta er þó einungis einn angi Chips-löggjafarinnar, sem alls felur í sér 280 milljarða dollara fjárútlát til hátækniframleiðslu og rannsókna, með það fyrir augum að auka samkeppnishæfni Bandaríkjanna gagnvart Kína.
Er Joe Biden Bandaríkjaforseti skrifaði undir löggjöfina snemma í ágústmánuði kallaði hann löggjöfina mikilsverða „fjárfestingu í Ameríku sjálfri“ af því tagi sem einungis ætti sér stað einu sinni á hverri mannsævi.
Þrátt fyrir þau stóru orð hefur verið bent á að alllangur tími kann að líða þar til ábatinn af þessari umfangsmiklu niðurgreiðslum bandarískra stjórnvalda til hátækniframleiðslu komi í ljós. Í frétt Axios segir að verksmiðjurnar sem þarf að byggja fyrir framleiðsluna séu afar flóknar, og að þrjú til fimm ár geti tekið að koma nýrri verksmiðju af þessu tagi á laggirnar.
Það þýði að líklega verði fyrstu ríkisstyrktu tölvukubbarnir í Bandaríkjunum ekki tilbúnir til notkunar fyrr en árið 2025.