Samtals urðu til 223 þúsund ný störf í aprílmánuði í Banaríkjunum, sem er meira en tvölfalt meira en raunin var í mars en þá urðu til 85 þúsund störf, samkvæmt tölum frá vinnumálastofnun Bandaríkjanna sem breska ríkisútvarpið BBC vitnar til í umfjöllun sinni.
Atvinnuleysi í Bandaríkjunum mælist nú 5,4 prósent og lækkaði um 0,1 prósentustig frá því í mars. Atvinnuleysi hefur ekki verið minna í Bandaríkjunum í sjö ár, en um tíma fór það yfir tólf prósent, eftir hremmingarnar á fjármálamörkuðum á árunum 2007 til 2009.
Þrátt fyrir að atvinnuleysi fari minnkandi, og að ný störf séu að verða til, þá eru batinn viðkvæmur en hagvöxtur mældist 0,2 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins, sem var töluvert undir spám. Seðlabanki Bandaríkjanna, undir stjórn bankastjórans Janet Yellen, hefur boðað að vaxtahækkunarferli gæti hafist síðar á þessu ári, ef aðstæður verða metnar þannig að slíkt skref sé rétt, en stýrivöxtum bankans hefur verið haldi við núllið árum saman, ekki síst með það að markmiði að örva hagvöxt.