Bandaríski herinn hefur boðað rannsókn á því hvernig miltisbrandur er meðhöndlaður innan hans, en talið er að lifandi miltisbrandssporar hafi verið sendir óvart til 24 rannsóknarstofa í ellefu ríkjum Bandaríkjanna auk Suður-Kóreu og Ástralíu. Ekki er vitað til þess að miltisbrandurinn hafi valdið neinum skaða.
Á miðvikudag var fyrst sagt frá því óvart hafi verið send sýnishorn af þessum banvæna sjúkdómi á nokkra staði. Í gær var svo greint frá því að enn fleiri mistök hefðu verið gerð og miltisbrandurinn sendur enn víðar en fyrst var talið.
Sérfræðingar hafa gagnrýnt þessi mistök hersins harðlega og kallað eftir því að farið verði yfir málið og þær varúðarráðstafanir sem herinn gerir.
Sporarnir af miltisbrandinum áttu að vera óvirkir eða dauðir, en svo reyndist ekki vera. Herinn hefur nú óskað þess að allar rannsóknarstofur hans, sem hafa áður fengið óvirkan miltisbrand, rannsaki efnið vel. Þá hefur einnig verið ákveðið að hætta öllum rannsóknum og vinnu með efnið.
Undanfarin ár hefur verið óttast að miltisbrandur gæti verið notaður í hryðjuverkastarfsemi, en allir sem sýkjast og eru ekki meðhöndlaðir í tæka tíð deyja af völdum hans.