Störfum í Bandaríkjunum fjölgaði meira síðustu þrjá mánuði en þau hafa gert á slíku tímabili í heil 17 ár. Vöxturinn átti sér stað í nánast öllum atvinnuvegum og mælingar sýna að sumir atvinnurekendur í Bandaríkjunum hafa loksins þurft að bjóða hærri laun en hafa verið í boði undanfarin misseri til að laða að mesta hæfileikafólkið. Þetta kemur fram í umfjöllun Business Insider.
Einungis til störf handa helmingi atvinnulausra
Þrátt fyrir þetta mikla uppgrip eru enn um níu milljónir Bandaríkjamanna atvinnulausir. Ástæða þessa er að mestu tvíþætt. Í fyrsta lagi eru mörg fyrirtæki að flýta sér hægt við að ráða í störfin sem þau hafa auglýst þar sem þau vilja vanda sig vel við að velja rétta starfskraftinn. Í öðru lagi skortir marga atvinnuleitendur þá færni sem atvinnurekendur eru að leita að.
Þetta er ekki óvenjuleg staða á bandarískum vinnumarkaði. Tölur sýna að jafnvel í bestu árferðum er fjöldi þeirra sem eru í atvinnuleit um helmingi hærri en þau nýju störf sem eru í boði hverju sinni. Nú eru um fimm milljónir starfa laus til umsóknar í landinu, sem er mesti fjöldi þeirra síðan árið 2001. Þau störf myndu samt sem áður einungis duga til að sjá rúmlega helmingi þeirra sem ríkið flokkar sem atvinnulausa fyrir vinnu.