Laun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, hækkuðu um 3,2 milljónir króna í fyrra og voru 45,4 milljónir króna. Það þýðir að hún var með 3,8 milljónir króna í mánaðarlaun að meðaltali sem er um 263 þúsund krónum hærri laun á mánuði en hún hafði að meðaltali á mánuði á árinu 2020. Laun hennar hækkuðu því um sjö prósent milli ára.
Auk launa og hlunninda (sem í felast til að mynda afnot af bifreið í eigu bankans) fékk Lilja greitt mótframlag í lífeyrissjóð upp á 8,7 milljónir króna, eða 725 þúsund krónur á mánuði að meðaltali. Mótframlagsgreiðslur hennar hækkuðu um 8,8 prósent milli ára.
Samtals fékk Lilja því 54,4 milljónir króna í laun og mótframlag í lífeyrissjóðs á síðasta ári, eða rúmlega 4,5 milljónir króna á mánuði.
Þetta kemur fram í ársreikningi Landsbankans vegna ársins 2021 sem birtur var í dag.
Lilja var með tæplega 2,1 milljón króna í laun á mánuði þegar hún var ráðin í bankastjórastarfið, en hún hóf störf 15. mars 2017.
Laun hennar voru skömmu síðar, eða um mitt ár 2017, hækkuð í 3,25 milljónir króna og á árinu 2018 upp í 3,8 milljónir króna. Laun Lilju höfðu því hækkað um 82 prósent.
Laun Lilju Bjarkar voru um 3,6 milljónir króna að meðaltali á mánuði árið 2019 og 2020 en hækkuðu, líkt og áður sagði, í fyrra upp í um 3,8 milljónir króna.
Landsbankinn, sem er í eigu íslenska ríkisins, hagnaðist um 28,9 milljarða króna á síðasta ári. Það er 18,4 milljörðum krónum meiri hagnaður en bankinn skilaði á árin 2020. Því jókst hagnaðurinn um 175 prósent milli ára.
Vegna þessa árangurs mun bankaráð Landsbankans leggja til við aðalfund að greiddur verði út 14,4 milljarðar króna í arð vegna ársins 2021. Verði þessi tillaga samþykkt munu arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2022 samtals nema um 160,6 milljörðum króna. Bankaráð er jafnframt með til skoðunar að leggja til að greiddur verði út sérstakur arður á árinu 2022. Ekki er tilgreint hversu há sú greiðsla gæti orðið.