Engin ákvörðun hefur verið tekin um framtíðarfyrirkomulag þeirra verkefna sem nú eru á borði Bankasýslu ríkisins. Að óbreyttu verður Bankasýslan ekki lögð niður um áramót líkt og frumvarp sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram á síðasta þingi gerði ráð fyrir. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram frumvarp til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum 1. apríl síðastliðinn. Samkvæmt frumvarpinu átti að leggja niður Bankasýslu ríkisins verður og færa eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum undir fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Hann átti í einnig að setja sérstaka eigandastefnu ríkisins sem tekur til þeirra fjármálafyrirtækja sem ríkið á eignarhluti í, skipa þriggja manna ráðgjafarnefnd, án tilnefninga, til að veita honum ráðgjöf um meðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og undirbúa sölu og sölumeðferð þeirra eignarhluta.
Í nótt var tilkynnt um að íslenska ríkið muni eignast allt hlutafé í Íslandsbanka ef nauðasamningar Glitnis verða samþykktir fyrir áramót. Þá mun íslenska ríkið eiga tvo af þremur stóru viðskiptabönkum landsins. Eins og lögin eru núna mun Bankasýsla ríkisins fara með það eignarhald og eftir atvikum undirbúa sölu bankanna.
Átti ekki að fá krónu á fjárlögum
Sú áætlun ríkisstjórnarinnar að leggja niður Bankasýsluna fékk stoð í því að í fjárlagafrumvarpi ársins 2016 er ekki gert ráð fyrir því að stofnunin fái eina krónu frá ríkissjóði. Frumvarpið um lög um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum náði þó ekki fram að ganga á síðasta þingi og er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi þingvetur.
Bankasýslan hefur hins vegar gert ráð fyrir því að hún muni sjá um sölu á eignarhlutnum í Landsbankanum sem til stendur að selja. Það kom m.a. fram í bréfi sem stofnunin sendi Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, í september, þess efnis að stofnunin myndi skila af sér tillögu til ráðherrans um sölumeðferð á 30 prósenta eignarhlut ríkisins í Landsbankanum fyrir 31. janúar á næsta ári. Í síðustu viku auglýsti Bankasýslan svo eftir starfsfólki í verkefni tengd fyrirhugaðri sölumeðferð ríkisins á eignarhlut í Landsbankanum hf. Bankasýslan óskaði eftir sérfræðingi í eignaumsýslu og lögfræðingi og hyggst ráða tvo til þrjá einstaklinga í tímabundin verkefni.
Íslandsbanki á leið í fang ríkisins
Nú gæti bæst verulega við verkefni Bankasýslunnar. Í nótt var tilkynnt að Glitnir ætli að láta ríkið hafa allt hlutafé í Íslandsbanka í tengslum við stöðugleikaframlag sitt. Gangi þau áform eftir mun ríkið eiga tvo stóra viðskiptabanka, Íslandsbanka og Landsbankann. Bjarni sagði við mbl.is í dag að það sé ekki framtíðarlausn að ríkið eigi allt hlutafé í Íslandsbanka og Landsbankanum. Því má búast við að ríkið muni selja Íslandsbanka ef það eignast hann.
Kjarninn beindi þeirri spurningu til fjármála- og efnahagsráðuneytisins hvort, og þá hvenær, ríkið ætlaði sér að selja Íslandsbanka. Í svari þess segir: "Tillögur hóps kröfuhafa Glitnis hf. um stöðugleikaframlag Glitnis til ríkisins í tengslum við heildstæða áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta fela ekki í sér endanlega ákvörðun stjórnvalda. Af þeim sökum er ótímabært að svara nokkru efnislega um tillögur þær sem borist hafa stjórnvöldum."