Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslu ríkisins sagði á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun að í hans huga væri seinna útboð ríkisins á hlutum í Íslandsbanka í mars síðastliðnum „farsælasta hlutafjárútboð Íslandssögunnar“.
„Við getum aldrei litið framhjá því þegar við ákveðum næstu sölu á eignarhlutum ríkisins,“ sagði forstjórinn, í kjölfar þess að Orri Páll Jóhannsson þingmaður Vinstri grænna hafði spurt hann og Lárus Blöndal stjórnarformann Bankasýslunnar hvort að þeir myndu mæla með því, eftir þá gagnrýni sem fram hefur komið, að ríkið notaðist aftur við tilboðsfyrirkomulag við sölu á frekari eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka eða öðrum fjármálastofnunum í framtíðinni.
Lárus sagði í svari sínu að í aðdraganda útboðsins hefði verið fjallað um ýmsar söluaðferðir og gerð grein fyrir þeim og tilboðsfyrirkomulaginu, og því að sú aðferð væri ekki gallalaus. Þetta væri hins vegar langvinsælasta söluaðferðin, og hefði verið mikið notuð af ríkissjóðum, eins og oft hefði komið fram.
„Í sjálfu sér snýst þetta ekki um það að þessi aðferð sé ótæk. Hún hefur ákveðna kosti, mikla kosti, hún t.d. gerði það að verkum að við gátum boðið þetta út. Við hefðum ekki getað farið út í almennt útboð sem hefði tekið marga daga miðað við þá áhættu sem hefði þá skapast á markaðnum miðað við að það er stríð í miðri Evrópu og allt annað sem er að gerast í efnahagsmálum heimsins. Ég tel að þetta hafi verið eini valkosturinn á þessum tímapunkti,“ sagði Lárus.
Hann sagði að ef taka ætti ákvörðun um nýtt útboð þá verði að horfa til þess hvað megi læra af þessu og hvaða gallar voru við útboðið í mars og hvort þeir hafi verið það stórir að menn vilji ekki fara þessa leið. Hann sagði að það væru einnig stórir og miklir vankantar á því að fara í almennt útboð, sérstaklega þegar tímar væru eins óvissir og þeir eru núna, en að þetta væri bara „samanburðarfræði“. Horfa þyrfti til þess hvaða árangri menn vildu ná.
Breska ríkið hafi tvívegis þurft að stíga frá almennu útboði
Jón Gunnar bætti því við að í minnisblaði Bankasýslunnar í janúar hefðu verið reifaðar fjórar aðferðir við sölu, auk almenns útboðs og tilboðsfyrirkomulagsins hafi verið fjallað um svokallaða miðlunaráætlun þar sem bréf væru seld í smá skömmtum, sem ætti betur við ef ríkið ætti orðið undir 20 prósent í bankanum, og svo útgáfu skiptanlegra skuldabréfa.
„Þetta eru nákvæmlega þær sömu aðferðir og t.d. systurstofnun okkar í Bretlandi, UKFI, mat á sínum tíma þegar breska ríkið var að selja hlut í Lloyd’s bankanum. Þeir þurftu tvisvar að hverfa frá útboði frá almennings út af markaðsaðstæðum. Þannig að kostir þessa fyrirkomulag eru gríðarlega miklir sérstaklega vegna þess að með þessum hætti náum við hæsta verði og lágmarka verðmætinu,“ sagði Jón Gunnar.
Hann bætti því við að hann teldi að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefði gert nefndinni grein fyrir þessu með skýrum hætti er hann kom fyrir nefndina nýlega, að það gæti verið fórnarkostnaður falinn í því að tryggja mismunandi þætti í útboði, eins og hæsta verð eða gagnsæi.
Í máli Bjarna á þeim fundi kom fram að hann teldi útilokað að sú ríkisstjórn sem nú situr myndi notast við tilboðsfyrirkomulagið við frekari sölu á eignarhlutum ríkisins í bankanum, vegna galla sem því fylgi, „ekki síst í svona smáu samfélagi eins og við búum í“.