Jeremy Clarkson, sem hefur verið einn þriggja þáttastjórnenda Top Gear um árabil, hefur verið rekinn, samkvæmt frétt CBS fréttastofunnar.
Mark White, starfsmaður Sky News, tvítaði sömu niðurstöðu fyrr í dag.
BREAKING - Top Gear presenter Jeremy Clarkson has been sacked by the BBC over his fracas with a producer
— Mark White (@skymarkwhite) March 25, 2015
Auglýsing
Bæði The Telegraph og The Guardian greindu frá því í morgum að Clarkson myndi líkast til verða rekinn fyrir atvik sem átti sér stað á hóteli fyrir nokkrum vikum, eftir langan tökudag á þáttunum. Clarkson lenti þá saman við einn framleiðenda þáttarins, en ekki hefur verið upplýst að öllu leyti hvað átti sér stað. Samkvæmt frétt Telegraph mun æðsti yfirmaður BBC, Tony Hall lávarður, tilkynna það í nánustu framtíð að Clarkson hafi ráðist á framleiðandann, Oisin Tymon.
Brottrekstur Clarkson mun líkast til þýða endalok Top Gear-þáttanna, sem eru ein vinsælasta söluvara BBC. Þrettán ár eru síðan að þættirnir hófu göngu sína. Top Gear eru sýndir á alls 215 svæðum út um allan heim og þátturinn halaði inn yfir 30 milljarða króna í tekjur fyrir BBC Worldwide á síðasta ári.
Samkvæmt frétt The Guardian mun BBC reyna að endurhanna þáttinn í kringum hina tvo þáttastjórnendurna, Richard Hammond og James May. Breskir fjölmiðlar virðast þó flestir sammála um að það sé misráðið. Clarkson hafi alltaf verið þungamiðja þáttanna.