Bræðurnir, sem grunaðir eru um fjöldamorðin á ritstjórn skopmyndablaðsins Charlie Hebdo, hafa verið umkringdir í bænum Dammartin-en-Goele, sem er skammt frá alþjóðaflugvellinum Charles De Gaulle. Samkvæmt frönskum fréttamiðlum hefur tveimur flugbrautum verið lokað hjá flugvellinum, þar sem bannað er að fljúga yfir svæðið þar sem umsátrið ríkir.
Gríðarlega fjölmennt lið lögreglu hefur umkringt prentsmiðju í bænum, þar sem bræðurnir hafa að minnsta kosti einn einstakling í gíslingu.
Herþyrlur lentu á svæðinu nú fyrir stundu, en gríðarlegur viðbúnaður er á svæðinu, enda bræðurnir álitnir vel vopnaðir og hættulegir.
Hér fyrir neðan er hægt að fylgjast með umfjöllun Sky fréttastofunnar af atburðunum.
http://youtu.be/VYlQJbsVs48
Franska fréttastofan AFP hefur greint frá því að nú séu talin vera tengsl á milli árásarinnar á Charlie Hebdo og annarrar skotárásar í París í gær, þar sem lögreglukona var skotin til bana og maður alvarlega særður. Áður hafði verið sagt að engin tengsl væru á milli árásanna tveggja. Þó er ekki talið að Kouachi bræðurnir hafi komið með beinum hætti að skotárásinni í gær. Tveir hafa verið handteknir vegna seinni árásarinnar, en Reuters greinir frá því að skotárásarmaðurinn sé meðlimur í sama hryðjuverkahópi og Kouachi bræðurnir.
Une "connexion" entre les frères Kouachi et le suspect de Montrouge (sources policières) #AFP
— Agence France-Presse (@afpfr) January 9, 2015
AFP hefur einnig birt þessa mynd af lögreglumanni í umsátrinu.
#CharlieHebdo : Dammartin en état de siège http://t.co/ixyOFhHrvq par @eszeftel & @NGubert_AFP pic.twitter.com/zfKBu4VNOz #AFP
— Agence France-Presse (@afpfr) January 9, 2015
Tvær flugvélar, frá Icelandair og Wow, lögðu af stað frá Keflavíkurflugvelli áleiðis til Parísar í morgun. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við Kjarnann að flugfélaginu hafi ekki verið tilkynnt um neinar breytingar á flugáætlun vélarinnar. Kjarninn náði ekki tali af upplýsingafulltrúa Wow-Air í morgun.
Þessi frétt verður uppfærð um leið og nýjar upplýsingar berast.