Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og fyrrverandi framkvæmdastjóri mannréttinda- og lýðræðismála hjá ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ber saman málsmeðferðartíma „klögumála“ í alþingiskosningunum hér á landi í 25. september og kosningum í Írak 10. október í færslu á Facebook-síðu sinni.
„Núna eru liðnar tæpar 5 vikur frá kosningum í Írak og sitt sýndist hverjum um úrslitin. Yfirkjörstjórnin er núna búin að fjalla um öll klögumál og endurtelja atkvæði í votta viðurvist frá 4.324 kjördeildum án þess að finna ósamræmi við fyrstu talningu,“ segir Ingibjörg Sólrún.
Á sama tíma bendir hún á að undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar hafi nú varið sex vikum í að fara yfir talningu í Norðvesturkjördæmi án þess að komast að niðurstöðu. „Hvers vegna er þetta svona flókið?“ spyr hún.
Undirbúningsnefnd kjörbréfa tók til starfa að loknum alþingiskosningum 25. september eftir að í ljós kom að skekkja var í upprunalegum lokatölum í Norðvesturkjördæmi sem kynntar höfðu verið morguninn eftir kjördag.
Nefndin hefur það hlutverk að skoða gildi kosninganna í Norðvesturkjördæmi og önnur álitamál, en álit nefndarinnar verður síðan borið undir atkvæðagreiðslu í þinginu. Nefndin hefur meðal annars farið í þrjár vettvangsferðir í Borgarnes til að skoða aðstæður og kjörgögn til að leita svara við þeim spurningum sem enn hafa ekki fengist svör við.
Niðurstöðu nefndarinnar er enn beðið og hefur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gefið það út að ríkisstjórn verði ekki mynduð fyrr en niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir.