Af þeim fimm þingmönnum sem náðu inn á Alþingi eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi kaus einungis einn, Bergþór Ólason frá Miðflokki, með samþykkt á staðfestingu á eigin kjörbréfi í gær. Hinir fjórir sátu hjá.
Einn úr hópnum, Guðbrandur Einarsson, nú þingmaður Viðreisnar, hafði gefið það út opinberlega að hann ætlaði að samþykkja niðurstöðu endurtalningar þegar kosið yrði um hana á þingi en snerist hugur og sat hjá.
Bergþór hafði ekki viljað gefa upp afstöðu sína fyrir gærdaginn, en hann er myndar ný tveggja manna þingflokk með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins.
Fimm út, fimm inn
Þegar niðurstaða endurtalningar í Norðvesturkjördæmi, sem fór fram daginn eftir kosningarnar í september síðastliðnum, lá fyrir misstu fimm frambjóðendur jöfnunarþingsæti sem þeim hafði verið úthlutað og fimm aðrir hlutu slíkt sæti.
Klauf sig frá þingflokki Pírata
Alþingi samþykkti í gærkvöldi, með 42 atkvæðum gegn fimm, að staðfesta gildi kosninganna í Norðvesturkjördæmi. Sextán þingmenn greiddu ekki atkvæði.
Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í kjörbréfanefnd og heilbrigðisráðherra, lagði fram tillögu um uppkosningu í Norðvesturkjördæmi. Gísli Rafn Óskarsson, þingmaður Pírata sem hlaut sæti á Alþingi eftir endurtalningu, kaus gegn þeirri tillögu en allir aðrir viðstaddir þingmenn Pírata studdu hana.
Þá vakti einnig athygli að Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, studdi tillögu Svandísar, sem var á endanum felld, en kaus líka með tillögunni sem var á endanum samþykkt og fól í sér að endurtalningin var látin gilda.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem stýrir ráðuneytinu sem fer með framkvæmd kosninga, kaus með því að niðurstaða endurtalningarinnar yrði látin standa.