Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, trónir á toppnum á lista Frjálsrar verslunar yfir þá starfsmenn hagsmunasamtaka sem þiggja hæstu launin fyrir vinnuframlag sitt. Heiðrún Lind var með um 3,9 milljónir króna í laun á mánuði á síðasta ári.
Það er aðeins meira en Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins, tók með sér heim að meðaltali um hver mánaðarmót á síðasta ári, en hann fékk rúmlega 3,8 milljónir króna í mánaðarlaun. Sigurður er hins vegar í fleiri en einu starfi því hann er líka stjórnarformaður Kviku banka. Á árinu 2021 fékk hann alls tæplega 1,5 milljónir króna í laun og lífeyrisgreiðslur fyrir að sinna því starfi. Samanlögð laun Sigurðar hækkuðu um hálfa milljón króna á meðaltali í fyrra.
Í þriðja sæti kemur Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), sem var með rúmlega 3,8 milljónir í tekjur á mánuði á síðasta ári. Það er um hálfri milljón krónum minna en á árinu 2020 sem bendir til þess að tekjur hans á því ári hafi komið víðar að en einvörðungu vegna starfa Halldórs Benjamíns fyrir SA.
Við útreikning tekna er miðað við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum úr lífeyrissjóði. Þá verður að hafa í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði hjá lífeyrissjóði.
Nokkrir með um og yfir tvær milljónir á mánuði
Aðrir fyrirferðamiklir stjórnendur hagsmunasamtaka með há laun voru Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, sem var með tæplega 2,6 milljónir króna á mánuði. Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, og Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, voru bæði með um tvær milljónir króna á mánuði.
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, var með 1,9 milljónir króna á mánuði og Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, var með 1,8 milljón króna á mánuði. Páll Erland Landry, framkvæmdastjóri Samorku, var svo með 1,7 milljónir króna í laun á mánuði á árinu 2021.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, tók rúmlega 1,6 milljónir króna með heim um hver mánaðamót að meðaltali og Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, var með tæplega 1,5 milljónir króna í laun á mánuði. Skammt á hæla hans, með sambærileg laun, kom Jóhannes Þór Skúlason, framkævmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, með 1,4 milljónir króna.
Rúmlega 100 með yfir milljón á mánuði
Ýmsir aðrir starfsmenn hagsmunasamtaka, utan þeirra sem eru efstir í skipuriti þeirra, voru með góð laun á síðasta ári. Má þar nefna Finn Geir Beck, forstöðumann hjá Samorku, sem var með rúmlega tvær milljónir króna í tekjur á mánuði og Yngva Örn Kristinsson, hagfræðing hjá Samtökum fjármálafyrirtækja, sem var með nánast sömu upphæð í laun. Sömu sögu er að segja af Sigríði Mogensen, sviðsstjóra hjá Samtökum iðnaðarins. Laun hennar voru rétt um tvær milljónir króna á mánuði samkvæmt Tekjublaðinu.
Í tekjuflokknum „Hagsmunasamtök og aðilar vinnumarkaðarins“ í Tekjublaði Frjálsrar verslunnar eru tólf tekjuhæstu með meira en tvær milljónir króna á mánuði og fjölgar um tvo í þeim hópi milli ára. Þá eru 101 með yfir milljón krónur á mánuði sem eru 19 fleiri en á árinu 2020.
Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar allir undir tveimur milljónum
Þegar horft er til þeirra sem vinna innan verkalýðshreyfingarinnar er Stefán Ólafsson, sérfræðingur hjá Eflingu, með hæstu mánaðarlaunin samkvæmt Frjálsri verslun eða 2,2 milljónir króna. Stefán er 71 árs gamall og því má ganga út frá því að hluti launa hans séu eftirlaunagreiðslur. Hann var prófessor í félagsfræði hjá Háskóla Íslands um margra ára skeið en lét af störfum þar í lok árs 2020 eftir 40 ára starf innan skólans.
Björn Snæbjörnsson, sem hætti sem formaður Starfsgreinasambands Íslands fyrr á þessu ári, var með um tvær milljónir króna í laun á síðasta ári. Árni Bjarnason, formaður félags skipstjórnarmanna, var með 1,9 milljónir króna í laun.
og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, stærsta stéttarfélags á Íslandi, var með rúmlega 1,8 milljónir króna í laun og Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR, var með rúmlega 1,7 milljónir króna í laun. Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar, var einnig með um 1,8 milljónir króna í laun.
Þá var Kristján Þórður Snæbjörnsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og starfandi forseti ASÍ, með um 1,6 milljónir króna í mánaðarlaun. Það eru svipuð laun og Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins, og Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, voru með á síðasta ári.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, var með rúmlega 1,5 milljónir króna í laun á mánuði á árinu 2021, Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, var með 1,4 milljónir króna í laun líkt og Ragnar Þór Pétursson, þáverandi formaður Kennarasambands Íslands, og Vilhjálmur Birgisson, núverandi formaður Starfsgreinasambandsins og formaður Verkalýðsfélags Akraness var með tæplega þá upphæð. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, var svo með rúmlega 1,3 milljónir króna í mánaðarlaun að meðaltali, sem er nánast það sama og Sandra Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, fékk á mánuði.
Drífa Snædal, sem nýverið sagði af sér embætti forseta Alþýðusambands Íslands, var með 1,2 milljónir króna á mánuði og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, næst stærsta stéttarfélags landsins, með tæplega 1,1 milljón króna.
Formaður Fjölskylduhjálpar með næstum 1,8 milljón á mánuði
Perla Ösp Ásgeirsdóttir, sem var ráðin framkvæmdastjóri Eflingar í maí síðastliðnum, var með rúmlega 2,7 milljónir króna í laun í fyrra þegar hún starfaði sem framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Landsbankanum. Þá var Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, með um 2,6 milljónir króna á mánuði og Þórey Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða, með rúmlega 2,4 milljónir króna í laun.
Önnur athyglisverð nöfn sem Frjáls verslun setur undir flokkinn „Hagsmunasamtök og aðilar vinnumarkaðarins“ eru til að mynda Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Félags leigjenda á Íslandi, sem var með tæplega 1,8 milljónir króna í tekjur í fyrra samkvæmt blaðinu og Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, sem var með um 1,7 milljónir króna í laun á mánuði á árinu 2021.