Meirihluti fjárlaganefndar, skipaður nefndarmönnum stjórnarflokkanna þriggja, hefur lagt til að félagið Betri samgöngur ohf., sem ríkið og sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins stofnuðu og eiga í sameiningu, fái 900 milljónir króna úr ríkissjóði á næsta ári. Ástæðan er sú að ekki kemur til álagningar flýti- og umferðargjalda á árinu 2023 eins og gert var ráð fyrir í sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2019 og eiga að fjármagna rekstur félagsins.
Þegar samgöngusáttmálinn var gerður var hann kynntur sem 120 milljarða fjárfesting í samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu. Stærsti kostnaðarliður sáttmálans er hin svokallaða Borgarlína. Þá var boðað að ríkið kæmi með 45 milljarða króna að borðinu, að meðtöldu söluverðmæti Keldnalandsins, og sveitarfélögin 15 milljarða króna. Þá stóðu eftir 60 milljarðar, sem boðað var að innheimta skyldi með sérstökum flýti- og umferðargjöldum til ársins 2033. Sú tala hefur nú verið uppreiknuð, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, og er nú áætluð 74,6 milljarðar króna.
Ef upphæðinni er skipt jafnt yfir árin frá og með 2024 og út samningstímann þá nema árlegar tekjur af flýti- og umferðargjöldum 7,5 milljörðum króna.
Markmiðið að gangsetja gjöldin fyrir árslok 2024
Kjarninn greindi frá því í september að samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar ætlaði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að leggja fram frumvarp strax í nóvember á þessu ári umflýti- og umferðargjöldin. Lítið hefur heyrst af útfærslu þessara gjalda, sem eiga þó, líkt og áður sagði, að fjármagna helminginn af öllum þeim samgönguframkvæmdum sem framundan eru á höfuðborgarsvæðinu næsta rúma áratuginn.
„Gjöldunum er ætlað að tryggja nauðsynlega fjármögnun um leið og þeim er ætlað að stuðla að því að markmiðum Samgöngusáttmála ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu verði náð,“ sagði í þingmálaskránni.
Frumvarpið hefur enn sem komið er ekki verið lagt fram og frestun á gjaldtökunni kallar á 900 milljón króna framlag úr ríkissjóði á næsta ári. Margt bendir til þess að verkefnið sé skammt á veg komið en 18. nóvember síðastliðinn auglýsti fjármála- og efnahagsráðuneytið eftir sérfræðingum til að móta gjaldtökuna. Í þeirri auglýsingu sagði meðal annars að markmiðið sé „að allir helstu þættir í nýju kerfi samgöngugjalda verði gangsettir fyrir árslok 2024.“
Skýrsla unnin um uppsetningu tollahliða
Í febrúar greindi Kjarninn frá því að Betri samgöngur hefðu þegar um haustið 2021 lagt fram tillögur til ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um að hafist yrði handa við að útfæra gjöldin, með það fyrir augum að þau yrði lögð á frá 1. janúar 2023.
Minnisblaðið sem Betri samgöngur sendu ríkinu og sveitarfélögunum má nálgast hér, en í því er meðal annars dregin upp gróf mynd af því hversu há veggjöldin þyrftu að vera á annatímum og utan þeirra til þess að nægt fé innheimtist árlega.
Fjármögnunaráætlun samgöngusáttmálans frá 2019 gerði ráð fyrir því að fimm milljarðar króna yrðu innheimtir árlega á 12 ára tímabili með þessum gjöldum, alls 60 milljarðar króna sem nú eru orðnir tæplega 75 milljarðar króna.
Í minnisblaðinu voru settir fram grófir útreikningar um það hve mikið þyrfti að rukka fyrir akstur í gegnum tollahlið sem sett væru upp við akstursleiðir inn að miðsvæði höfuðborgarinnar, í Fossvogsdal og svo á bæði Miklubraut og Reykjanesbraut við ósa Elliðaráa, en Betri samgöngur fengu verkfræðistofuna Eflu til þess að vinna skýrslu um uppsetningu tollahliða á þeim stöðum.
Þar kom fram að ef allar ferðir í gegnum tollahliðin myndu kosta 50 krónur og sama gjaldið væri rukkað allan sólarhringinn myndi það skila 5,1 milljarði króna í árlegar tekjur, ef gengið væri út frá því að daglegar ferðir um í gegnum tollahliðin væru 250 þúsund talsins.
Einnig var farið yfir það hvernig gjöldum af þessu tagi er beitt í öðrum borgum á Norðurlöndunum til þess að létta á bílaumferð á háannatímum.