Bára Huld Beck

Samgöngusáttmálinn „stóra málamiðlunin“ á milli öfganna í umræðunni

Skipulagsfræðingurinn Hrafnkell Á. Proppé hefur verið viðloðandi borgarlínuverkefnið allt frá því að hann réði sig til starfa hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) árið 2012. Í haust lét hann af störfum hjá Verkefnastofu Borgarlínu og ræðir nú við Kjarnann um stöðu verkefnisins, sögu þess og framtíð, hávaðann í umræðunni og kostnaðinn sem hlýst af því að skipuleggja allt utan um einkabílinn.

Það er verið að ryðja ákveðna braut og því full­snemmt að kveða úr um hvernig það mun ganga,“ segir Hrafn­kell Á. Proppé, fyrr­ver­andi for­svars­maður Verk­efna­stofu Borg­ar­línu um stöðu verk­efn­is­ins, sem snýst um gerð fyrstu hágæða almenn­ings­sam­gangn­anna á Íslandi – hrað­vagna­kerfis sem á að miklu leyti að aka um í sér­rými. Hrafn­kell segir verk­efnið ólíkt öllu öðru sem gert hafi verið í sam­göngu­málum á Íslandi til þessa og að lag­ara­mm­inn utan um almenn­ings­sam­göngur sé afar veikur og hefði tví­mæla­laust gott af yfir­haln­ingu.

Borg­ar­línu­verk­efnið er hluti af sam­göngusátt­mála höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins frá 2019, sem Hrafn­kell kallar í sam­tali sínu við blaða­mann „stóru mála­miðl­un­ina“ um sam­göngu­málin á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Margt hefur verið rætt og ritað um þessa fram­kvæmd – og sitt sýn­ist hverjum og umræðan ef til vill öfga­full á köfl­um. Því fékk Hrafn­kell að kynn­ast í starfi sínu fyrir Verk­efna­stofu Borg­ar­línu.

„Ég hef verið með kynn­ingu um Borg­ar­lín­una á sama degi bæði fyrir ungt fólk í háskól­anum og svo eldra fólk í Val­höll [húsa­kynnum Sjálf­stæð­is­flokks­ins]. Þegar sagt er frá fyr­ir­hug­uðum fram­kvæmdum sam­göngusátt­mál­ans í háskól­anum er spurt af hverju það sé svona mikið bíla­dek­ur. Á hinum staðnum er svo spurt, hvað sé eig­in­lega að okk­ur, að ætla að hrófla við umhverfi bíls­ins. Í mínum huga er sátt­mál­inn og það sem nú er verið að vinna að mála­miðlun á milli öfganna frekar en að það séu öfgarn­ir,“ segir Hrafn­kell.

Vega­gerðin fótar sig gagn­vart nýrri áskorun

Hrafn­kell réði sig í haust til starfa hjá Skipu­lags­stofnun og sagði þar með skilið við Verk­efna­stofu Borg­ar­línu, sem heyrir undir Vega­gerð­ina og fer með hönnun og fram­kvæmda­á­ætlun verk­efn­is­ins. Blaða­manni lék for­vitni á að vita hvernig honum þætti vinna verk­efn­is­ins undir hatti Vega­gerð­ar­innar vera að ganga.

„Jú ein­hverjum kann að þykja kúnstugt að Vega­gerðin sé með verk­efnið þar sem nafnið á ber með sér að þetta sé stofnun sem er bara að leggja vegi, en þegar rýnt er í lögin á bak við Vega­gerð­ina þá er þetta eini aðil­inn á land­inu sem hefur ein­hverjar lög­bundnar skyldur sem varða almenn­ings­sam­göng­ur,“ segir Hrafn­kell. Fók­us­inn hefur þó fyrst og fremst verið á almenn­ings­sam­göngur lands­hluta á milli, frá lands­byggðum að höf­uð­borg­inni og ferju­flutn­inga. Ekki um nokk­urra mín­útna stræt­ó­ferðir borg­ar­hlut­anna á milli. Rík­is­valdið hefur ekki verið mikið að skipta sér af þeim, hingað til.

„Vega­gerðin er einnig sá aðili sem hefur mesta reynslu af stórum sam­göngu­verk­efnum þó hún hafi ekki mikið unnið í borg­ar­um­hverf­inu í seinni tíð. Það hefur því legið fyrir frá upp­hafi að þetta er ákveðin áskorun fyrir Vega­gerð­ina. Hún þarf að laga sig að nýjum við­fangs­efnum og hefur verið að gera það, bæði eru þar komnar kraft­miklar konur í stjórn­enda­hlut­verk og öfl­ugir ráð­gjafar þeim til halds og trausts. Tím­inn mun svo leiða í ljós hvernig þetta mun ganga,“ segir Hrafn­kell og bendir um leið á að Vega­gerðin sé búin að vera við­loð­andi almenn­ings­sam­göngur á höf­uð­borg­ar­svæð­inu allt frá árinu 2012, þegar sam­komu­lag ríkis og sveit­ar­fé­laga um fram­lög rík­is­ins til Strætó komst til fram­kvæmda.

Það sam­komu­lag er stundum kallað „til­rauna­verk­efn­ið“ og var ætlað að efla helstu stofn­leiðir Strætó á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, meðal ann­ars með for­gangs­reinum fyrir stræt­is­vagn­anna, sem hefur verið bætt við hér og þar í gatna­kerf­inu. „Per­sónu­lega held ég að það hafi verið borg­ar­línu­verk­efn­inu til góðs að fá Vega­gerð­ina inn í það því það setti það úr því að vera hug­ar­fóstur sveit­ar­fé­lag­anna yfir í að verða verk­efni sem ríkið var að fást við af alvöru. Að því leyti til var það gott fyrir verk­efn­ið. Vega­gerðin er að takast á við þessar nýju áskor­anir og enn sem komið er hún að höndla það ágæt­lega.“

Einka­að­ilar geta hirt feit­ustu bita almenn­ings­sam­gangna

Hrafn­kell segir að hann telji tví­mæla­laust kom­inn tíma á að setja skýr­ari ramma utan um almenn­ings­sam­göngur á Íslandi, með laga­setn­ingu um hvert hlut­verk rík­is­ins eigi að vera og hvert hlut­verk sveit­ar­fé­laga eigi að vera.

Einnig segir hann það hafa gert sam­göngu­teng­ingum við höf­uð­borg­ar­svæðið erfitt fyrir að hluti almenn­ings­sam­gangna sé á sam­keppn­is­grunni, en skýrasta dæmið um það eru ef til vill rútu­teng­ingar höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins við Kefla­vík­ur­flug­völl.

„Þú getur sem einka­að­ili á þessum mark­aði hirt arð­söm­ustu bit­ana og skilið hitt eft­ir, það sem engan veg­inn stendur undir sér. Allur þessi óskýr­leiki í lagaum­hverf­inu er engum til góða og ég skil ekki af hverju það er ekki löngu búið að gera gang­skör í því að koma lög­gjöf hér­lendis í þá átt sem við sjáum í nágranna­lönd­un­um.“ segir Hrafn­kell.

Lær­dómur af Nýja Land­spít­al­anum

Borg­ar­línu­verk­efnið er hluti af sam­göngusátt­mála höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, sem und­ir­rit­aður var í sept­em­ber árið 2019. Á sein­asta ári var félagið Betri sam­göngur ohf. svo stofnað til þess að halda utan um sam­göngusátt­mál­ann. Spurður hvernig honum lít­ist á það fyr­ir­komu­lag að stofna opin­bert hluta­fé­lag utan um sam­göngusátt­mál­ann segir Hrafn­kell að það sé enn að kom­ast reynsla á það.

Hann nefnir þó að þetta sé nán­ast sama fyr­ir­komu­lag og var sett fram á sínum tíma með Nýja Land­spít­al­ann ohf., sem átti að hafa umsjón með fram­kvæmdum við spít­ala­bygg­ing­una sem áttu þó að vera á hendi Fram­kvæmda­sýslu rík­is­ins. Það hafi ekki reynst vel og nú er Nýi Land­spít­al­inn með fram­kvæmd­irnar á sinni könnu.

„Það eru nátt­úr­lega sömu aðil­arnir sem standa að þessu, bæði opin­beru hluta­fé­lögin eru í eigu fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins og ég bara geri ráð fyrir því að þau hafi lært eitt­hvað af því ferli sem þeir séu þá að horfa til í þessu skrefi. Ég er ekki að segja að þetta muni fara eins, maður myndi ætla að þarna hefði orðið ein­hver lær­dóm­ur,“ segir Hrafn­kell, sem telur sam­band Betri sam­gangna og Vega­gerðar ágætt og vera að slíp­ast til.

„Þetta er nýtt verk­efni og nýtt við­fangs­efni og það eru allir að læra og reyna að átta sig á hvernig á að takast á við það. Ég held að það sé verk­efn­inu mjög til góða að sá sem er að leiða það núna sé starfs­maður Betri sam­gangna. Það gefur þeim beinni inn­sýn inn í verk­efnið og betri skiln­ing á því,“ segir Hrafn­kell og á þar við Þröst Guð­munds­son verk­fræð­ing sem var í upp­hafi árs ráð­inn for­stöðu­maður verk­efna og áætl­ana hjá Betri sam­göng­um.

„Í þeirra hóp er einnig kom­inn Þor­stein Her­manns­son sem gjör­þekkir verk­efnið frá fyrstu dögum þess. Hann var með í að móta svæð­is­skipu­lagið á sínum tíma og hefur því þessa línu­legu teng­ingu sem er nauð­syn­leg. Mér sýn­ist þetta allt vera að slíp­ast til, en auð­vitað hefur þetta tekið tíma og ef maður brennur í skinn­inu fyrir því að hlut­irnir ger­ist „hvis­s-bæng-búmm“ þá finnst manni þetta kannski ekki ganga nógu hratt, en það er bara óraun­hæft í svona verk­efni. Þetta er það mikið risa­verk­efni, sem þarf að hafa inn­byggða seiglu. Þetta snýst ekki um að reyna að vinna hverja orr­ustu, þú þarft að hafa úthaldið og jafn­vel hug­rekki til að horfa ára­tugi fram í tím­ann,“ segir Hrafn­kell.

Ekki eyða of miklum tíma í hávað­ann

Talandi um orr­ust­ur. Fyrr í þessum mán­uði sagði Hildur Björns­dóttir borg­ar­full­trúi Sjálf­stæð­is­flokks­ins að deilur um skipu­lags­mál í Reykja­vík, meðal ann­ars Borg­ar­línu og þær breyt­ingar á umhverfi einka­bíls­ins sem búast má við að til­koma hennar hafi í för með sér, mætti með réttu kalla „menn­ing­ar­stríð“.

Hrafn­kell tekur ekki undir að það ríki sér­stakt „menn­ing­ar­stríð“ um bíla og aðra ferða­máta á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, en telur þá and­stæðu póla sem stundum takast á um þessi mál lýsandi fyrir umræðu­hefð sam­tím­ans.

„Það er eins og það sé miklu meiri sala í hávað­anum en í hóf­stilltu sam­tali. Alls staðar þar sem hægt er að finna ein­hvern ágrein­ing og þar sem eru tvær fylk­ing­ar, þá magn­ast það svo­lítið upp, bæði í póli­tískri umræðu og allri umræðu. Þetta er bara eitt­hvað almennt í sam­ræðu­kúltúr og ekki bara hér – maður hélt stundum að þetta væri eitt­hvað sér­ís­lenskt – en pólarís­er­ing er trend sem er í almennri umræðu og hefur ef til vill eitt­hvað með sam­fé­lags­miðla að gera. Aðal­at­riðið í mínum huga er að taka þetta ekki of alvar­lega, að eyða ekki of mik­illi orku í hávað­ann,“ segir Hrafn­kell.

„Al­veg sama þó það séu ein­hver læti í póli­tík­inni út á við þá er á end­anum bara verið að fylgja ákvörð­unum sem eru tekn­ar, af til þess bærum aðilum við þess bærar aðstæð­ur. Það eru teknar vel ígrund­aðar skipu­lags­á­kvarð­anir og þær eru stað­festar og þá liggur fyrir eitt­hvað plan. Það er gerð sam­göngu­á­ætlun við ákveðnar aðstæður og svo er komið eitt­hvað plan, sem í þessu til­felli Vega­gerðin og Betri sam­göngur eru núna að fram­fylgja. Þó það sé ein­hver hávaði inn á milli, þá skiptir það engu máli. Það er það sem er ákveðið við gerð hverrar sam­göngu­á­ætl­unar hverju sinni sem skiptir máli, hitt er bara hávaði og þjónar oft ákveðnum til­gangi í aðdrag­anda kosn­inga eða eitt­hvað svo­leið­is. Það eru nátt­úr­lega allir stjórn­mála­menn að reyna að ná sér í umboð frá kjós­endum og þurfa ein­hvern veg­inn að gera sig sýni­lega. Sumir velja þessa leið til þess og það er bara eins og það hefur alltaf verið og verður alltaf, held ég,“ segir Hrafn­kell.

Hann telur þetta hins vegar baga­legt og koma niður á nauð­syn­legu sam­tali um ein­staka útfærslur sem eru mik­il­vægar til að end­an­leg útkoma verði sem best bæði fyrir nær­sam­fé­lagið og höf­uð­borg­ar­svæðið allt. „Þegar ráð­ist er í svona stórar breyt­ingar á umhverf­inu verður að vera hægt að eiga gott sam­tal við þá sem lifa og hrær­ast í nærum­hverf­inu. Bæði til að og finna leiðir til að auka gæði nærum­hverf­is­ins að fram­kvæmdum loknum og minnka ónæðið á fram­kvæmda­tím­an­um,“ segir Hrafn­kell.

Höf­uð­borg­ar­svæðið ber ekki að allir sem þangað flytji keyri um á bíl

Í lát­unum sem mynd­ast af og til yfir skipu­lags- og sam­göngu­mál­unum á póli­tíska svið­inu og í opin­berri umræðu segir Hrafn­kell að það fari stundum lítið fyrir því að öll sveit­ar­fé­lögin á höf­uð­borg­ar­svæð­inu standi sam­ein­uð, þvert á alla stjórn­mála­flokka, að þeirri fram­tíð­ar­sýn sem birt­ist í svæð­is­skipu­lag­inu frá 2015 þar sem þétt­ara borg­ar­svæði með hágæða almenn­ings­sam­göngum var teiknað upp, eftir að grein­ingar sýndu að eina leiðin til að takast á við vænta fólks­fjölgun á höf­uð­borg­ar­svæð­inu væri það að breyta ferða­venjum með rót­tækum hætti.

„Það er ekki hægt að halda áfram hina leið­ina,“ segir Hrafn­kell og nefnir að hann hafi nýlega haldið erindi á ráð­stefnu um lofts­lags­mál, þar sem hann setti land­þörf sam­gangna í sam­hengi við lofts­lags­mál­in.

„Und­an­farið hefur árleg fjölgun á höf­uð­borg­ar­svæð­inu að jafn­aði verið um 4.000 íbú­ar. Miðað við hvernig við erum að þjón­usta ferða­þörf þessa fólks í dag þá bæt­ast við 3.000 bílar á hverju ári. Ef þú myndir raða þessum bílum öllum upp á rauðu ljósi við Kringlu­mýr­ar­braut­ina þá myndi röðin enda við Kúa­gerði, á milli Straums­víkur og Voga. Þetta færi í gegnum Reykja­vík, Kópa­vog, Garða­bæ, Hafn­ar­fjörð og end­aði í Vogum á Vatns­leysu­strönd, leið sem væri 22 kíló­metr­ar.

Þegar þessi umræða byrjar úti í sam­fé­lag­inu á hverju hausti, um að það sé miklu meiri umferð heldur en síð­asta haust, þá er það bara alveg rétt. En það er af því að okkur hefur ekki tek­ist að bjóða íbú­unum upp á aðra alvöru val­kost­i,“ segir Hrafn­kell og nefnir að bíl­arnir taki ekki bara pláss á göt­un­um, heldur þurfi að skaffa þeim bíla­stæði. Ætla megi að hver bíll þurfi 4 bíla­stæði og hvert bíla­stæði um 25 fer­metra með öllu, það þurfi því um 30 hekt­ara fyrir 3.000 bíla.

Hrafnkell er hér í aftari röð til vinstri við kynningu á frumdrögum að fyrstu lotu Borgarlínu, í febrúar 2021.
Mynd: Borgarlína

Hrafn­kell segir að þrjá­tíu hekt­arar af landi á yfir­borði inni í miðri borg séu vand­fundnir og ef það eigi að geyma alla þessa bíla í bíla­kjall­ara sé það algjör­lega galið í sam­hengi lofts­lags­mála, að moka upp jarð­veg­inum og hauga hann upp utan bæj­ar­markanna, þar sem hann fari að losa kolefni.

„Um leið og þú haugar hann upp byrjar bruni á kolefni, og á sama tíma eru stjórn­völd að setja aura í að moka ofan í ein­hverja skurði. Við erum ekki að hugsa um þetta sam­hengi, þessi þróun getur ekki gengið áfram – það eru engin geim­vís­indi. Borg­ar­sam­fé­lög geta ekki tek­ist á við vöxt­inn nema með því að mæta ferða­þörf­inni með sjálf­bær­ari og skil­virk­ari hætti. Þar sem þú getur flutt fleira fólk með minni til­kostn­aði fyrir sam­fé­lagið í heild sinni. Þá er ég bara að tala um allan til­kostn­að, líka þann sem spar­ast við að taka minna pláss. Því við höfum ein­fald­lega ekki ótak­markað plás­s.“

Tæki­færin til að breyta ferða­venjum eru á höf­uð­borg­ar­svæð­inu

„Ef við horfum á landið sem heild þá búa ⅔ íbú­anna hér á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Hér eru tæki­færin til að mæta ferða­þörf fólks með öðrum hætti en einka­bíln­um. Ef við ætlum að ná ein­hverjum árangri með almenn­ings­sam­göngum á lands­vísu þá eru tæki­færin fyrst og fremst hér þar sem til­tölu­lega margir búa á til­tölu­lega litlum fleti miðað við landið í heild.

SSH fékk Þór­ar­inn Hjalta­son til að meta á hversu stór hluti af bíla­um­ferð á Íslandi væri á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og nið­ur­staðan var sú að ætla mætti að það væri um helm­ing­ur. Þannig að um helm­ingur af bíla­um­ferð á Íslandi fer fram hér, á þessum til­tölu­lega afmark­aða rými, þar sem er alveg dauða­færi til að bjóða upp á aðra ferða­máta.

Ef við viljum ná ein­hverjum alvöru árangri í að minnka útblástur frá vega­sam­göng­um, þá er hann fyrst og fremst hér. Ég er ekki að segja að það sé ekki líka hægt ann­ars stað­ar, en það er hægt að taka langstærstu og mark­viss­ustu skrefin á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Ég hef ekki enn fundið eina ein­ustu borg sem við viljum bera okkur saman við, sem er ekki á ein­hverri sam­bæri­legri veg­ferð – og flestar í raun­inni með metn­að­ar­fyllri plön sem eru komin lengra á leið.

Þetta snýst ekki bara um jarð­efna­elds­neyti, þetta snýst líka um að við þurfum ekki að vera að hreyfa svona mikið land til að mæta upp­bygg­ingu og sam­göngum fram­tíð­ar­inn­ar. Við þurfum að finna leiðir til að vinna betur úr því sem við höfum nú þegar raskað,“ segir Hrafn­kell.

Ein leið­anna til að vinna betur úr þegar rösk­uðu landi er að gera fólki kleift að ferð­ast um það með skil­virk­ari hætti en einka­bíln­um, sem eins og hér hefur verið rak­ið, étur upp æ meira pláss í borg­ar­um­hverf­inu. Í þessa átt­ina hefur nú verið unnið í um ára­tug, af hálfu sveit­ar­fé­lag­anna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu sem í sam­ein­ingu hafa áttað sig á því að það gengur ekki til lengdar að einka­bíll­inn sé fyrsti sam­göngu­kostur jafn stórs hlut­falls íbúa og verið hef­ur.

Blaða­maður bað Hrafn­kel um að rifja upp hvernig verk­efnið sem í dag heitir Borg­ar­lína hefur þró­ast í gegnum árin, frá hans sjón­ar­horni.

„Ég kem þarna inn þegar það er aug­lýst eftir aðila til að taka að sér tveggja ára verk­efni við að skoða svæð­is­skipu­lag höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins. Þetta er á haust­mán­uðum 2012. Þarna áður höfðu sveit­ar­fé­lögin á höf­uð­borg­ar­svæð­inu verið að vinna að heil­mik­illi innri stefnu­mótun og það má segja að það hafi verið við­spyrnu­við­bragð við Hrun­inu, þá fóru sveit­ar­fé­lögin að skoða hvað þau gætu gert betur sam­an. Það komst meiri kraftur í sam­starf sveit­ar­fé­lag­anna og það kemur fram mjög sterk sýn, sem allir bæj­ar­stjór­arnir og Jón Gnarr borg­ar­stjóri skrifa undir á þeim tíma.

Þarna lágu fyrir skýr mark­mið um að sveit­ar­fé­lögin vildu breyt­ing­ar. Það var það sem mér fannst áhuga­vert og þess vegna lang­aði mig að takast á við þetta verk­efni. Ég hafði verið að vinna sem skipu­lags­ráð­gjafi hjá Alta og fannst að þarna væri tæki­færi til að móta nýja stefnu og sá að það var vilji til að fram­fylgja henn­i.“ segir Hrafn­kell. Hann bætir við að það hafi líka verið búið að opna á það í skipu­lags­lögum að svæð­is­skipu­lag þyrfti ekki að vera hefð­bundið land­notk­un­ar­skipu­lag.

„Það gat verið miklu stra­tegískara. Það voru því nokkrir þættir sem spil­uð­ust þarna upp sem dauða­færi til að breyta um kúrs. Við byrj­uðum að vinna í þessu í árs­byrjun 2013. Þá var gamla svæð­is­skipu­lagið við líði og verið að gera á því enda­lausar breyt­ingar sem var bæði tíma­frekt og flók­ið. Það hjálp­aði sveit­ar­fé­lög­un­um, að sjá gagnið í því að búa til plagg sem væri með fá bind­andi atriði, en miklu meiri fag­lega leið­bein­ingu og áherslu á að ná betri sam­hljómi og ýta undir sam­vinn­u,“ segir Hrafn­kell og bætir við að ef svæð­is­skipu­lagi þurfi reglu­lega að breyta fari öll orkan í það í stað þess að fylgja stefn­unni eft­ir.

Fram­tíðin leit hræði­lega út að óbreyttu

Í þess­ari vinnu var farið að skoða ákveðnar sviðs­myndir fyrir fram­tíð­ina á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Horft var á vaxt­ar­tíma­bil næstu 25 ára, eða fram til árs­ins 2040. Hrafn­kell segir að horft hafi verið til baka um 25 ár og að í einni sviðs­mynd­inni hafi verið sett fram mynd af því hvernig höf­uð­borg­ar­svæðið yrði ef haldið yrði áfram með sömu stefnu í skipu­lags­málum og hafði verið ein­kenn­andi frá 1985, með bygg­ingu nýrra úthverfa í jaðr­inum og stórum nýjum vega­sam­göngu­verk­efn­um.

„Það leit alveg hræði­lega út, svo það sé bara sagt. Að halda áfram að þenja byggð­ina út með enn meiri umferð­artöf­um. Það var fram­tíð sem engan langar að upp­lifa. Við stilltum þessu upp á móti sviðs­myndum þar sem við vorum með útgáfur af því að þétta byggð­ina og breyta ferða­venj­um. Þessi æfing og þetta sam­tal með öllum sveit­ar­fé­lög­unum gaf okkur tíma til að hugsa um fram­tíð­ina og fyrir stjórn­mála­menn sem eru oft­ast að hugsa bara í fjög­urra ára tíma­bilum þá var dálítið gott að hugsa, hvernig sé ég þetta svæði fyrir mér eftir 25 ár. Þá kemur aðeins annað sjón­ar­horn á það,“ segir Hrafn­kell.

Hann segir að haustið 2013 hafi hann og Þor­steinn Her­manns­son og Lilja Karls­dóttir kynnt umferð­ar­grein­ingar úr þessum sviðs­myndum á árs­fundi SSH, sem fram fór í Hörpu.

„Þá varð sam­staða um að halda áfram á sömu braut kæmi ekki til greina. Það þyrfti að breyta um kúrs, og kúr­s­inn væri sá að byggja upp hágæða almenn­ings­sam­göngur sem þá væri annað hvort létt­lest eða hrað­vagna­kerfi og vinna mjög mark­visst að því að beina upp­bygg­ing­unni á þessa ása, sem við köll­uðum sam­göngu­þró­unarása,“ segir Hrafn­kell og bætir við að þarna hafi „stóra áfang­an­um“ ef til vill verið náð, það sem á eftir kom hafi frekar verið „úr­vinnsla“.

„Það komu kosn­ingar inn í þetta 2014 þannig að þetta voru í raun­inni tvö sett af borg­ar- og bæj­ar­stjórnum sem voru í þess­ari vinnu. Það mynd­að­ist mjög breið sam­staða í kringum það. Svæð­is­skipu­lag var svo stað­fest 2015,“ segir Hrafn­kell.

Vega­gerðin ekki á vagn­inum í fyrstu

Hann segir að á þessum tíma hafi verið heil­mikið sam­tal í gangi við Vega­gerð­ina um áætl­anir sveit­ar­fé­lag­anna og að Vega­gerðin hafi á þessum tíma ekki „al­veg á þessum vagni“ ef hann eigi að orða það pent.

„Þeirra hugsun var: Hvernig tryggjum við að það sé örugg­lega nógu mikil afkasta­geta í vega­kerf­inu sem við berum ábyrgð á og hvernig getum við tryggt að svo verði áfram? Svo það voru átök um ýmsar lausnir en í stað þess að enda þetta með ein­hverjum harð­orðum umsögnum um að þetta væri ómögu­legt, þá sam­mælt­ust sveit­ar­fé­lögin og Vega­gerðin um að fara í sam­starf um þró­un­ina á sam­göngu­kerf­unum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Það sam­starf byrjar 2015 og það hefur í raun­inni leitt af sér sam­göngusátt­mál­ann,“ segir Hrafn­kell.

„Þannig að það sem byrj­aði sem stefna sveit­ar­fé­laga fer út í það að verða sam­eig­in­leg stefna ríkis og sveit­ar­fé­laga. Fók­us­inn hjá sveit­ar­fé­lögum var eðli­lega Borg­ar­lín­an, og stundum hefur verið talað um að þetta snú­ist allt um hana, en það var bara eng­inn ann­ars tals­maður fyrir það verk­efni. Veg­irnir eiga sér skýran tals­mann, Vega­gerðin er hann og þeir eiga sér sér­stök lög og það þarf engar áhyggjur af því að það séu ekki tals­menn fyrir þær fram­kvæmd­ir. En tals­menn bættra almenn­ings­sam­gangna og upp­bygg­ingu hjóla­stíga skorti, það voru engir aðrir en sveit­ar­fé­lögin sem gátu tekið það að sér. Það gerðu þau og fengu liðs­styrk í Eyjólfi Árna Rafns­syni, sem var þá orð­inn stjórn­ar­for­maður Sam­taka atvinnu­lífs­ins. Það var klókt að fá hann inn í þetta, hann er verk­fræð­ingur og hafði stýrt stórri verk­fræði­stofu. Verk­fræð­ingar þurfa oft að tala við aðra verk­fræð­inga til að sjá ljósið,“ segir Hrafn­kell og bætir við að Hreinn Har­alds­son fyrr­ver­andi vega­mála­stjóri eigi líka mik­inn heiður skil­ið.

„Hann var bæði við borðið þegar þetta til­rauna­verk­efni var gert árið 2012, það má segja að það teng­ist inn í þetta allt sam­an, og svo í þessum hópi sem var í upp­takt­inum að sam­göngusátt­mál­an­um. Hann á stóran hlut í þessu,“ segir Hrafn­kell og nefnir líka þátt þeirra sam­göngu­ráð­herra sem setið hafa allt frá árinu 2012.

Borg­ar­línan eins og hún er í dag er „létta Borg­ar­lín­an“

Und­an­farna mán­uði hefur nokkuð borið á hópi sem kallar sig Áhuga­fólk um sam­göngur fyrir alla (ÁS) í umræðum um Borg­ar­línu, en hóp­ur­inn hefur kynnt til sög­unnar hug­myndir um hrað­vagna­kerfi sem yrði með minna sér­rými fyrir almenn­ings­sam­göngur í stað þeirra til­lagna sem nú eru á borð­inu hvað hönnun Borg­ar­línu varð­ar. Auk nokkuð stór­tækra hug­mynda um mis­læg gatna­mót hér og þar í borg­inni.

Hrafn­kell segir að hann vilji helst ekki nota það nafn sem tals­menn þessa hóps hafa tamið sér að nota yfir hug­myndir sín­ar, en það er „létta Borg­ar­lín­an.“ Hann segir að það séu ein­hvers­konar eft­irá­skýr­ingar á Borg­ar­lín­unni að tala um „létt­ari lausn“, það sé þá ekki Borg­ar­lína og eigi því ekki að bera það nafn. Það hafi í reynd verið nið­ur­staða sam­göngusátt­mál­ans frá 2019 að fara í „léttu Borg­ar­lín­una“.

„Það er í raun­inni létta Borg­ar­lín­an, hrað­vagna­kerfið sem er verið að byggja upp núna. Þunga Borg­ar­línan hefði verið létt­lest­in,“ segir Hrafn­kell, sem segir hug­myndir ÁS í raun bara fram­hald á til­rauna­verk­efn­inu um efl­ingu Strætó sem staðið hafi yfir í sam­vinnu rík­is­ins og SSH árum sam­an. „Sömu menn hafa nú í raun­inni gagn­rýnt að það hafi ekki skilað neinum árangri. Það er ekk­ert sem bendir til þess að halda áfram á þeirri braut muni ná að bjóða upp á val­kost sem verði fýsi­legur fyrir fólk á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og nái að breyta ferða­venj­u­m,“ segir Hrafn­kell.

Hann segir að það sé ekki nóg að setja bara niður for­gangs­reinar fyrir almenn­ings­sam­göng­ur, umhverfi gatn­anna, almanna­rým­ið, sam­spilið við virka ferða­máta, verði að taka stakka­skiptum svo árangur náist.

„Al­menn­ings­sam­göng­urnar eru þess eðl­is, ólíkt bílnum sem venju­lega ber þig dyra á milli, að þú þarft að vera í götu­um­hverf­inu ein­hvern hluta leið­ar­inn­ar. Það kallar á heild­ar­hugsun sem bætir bæði umhverfi gang­andi og hjólandi og liðkar fyrir almenn­ings­sam­göng­um. Það að fjölga for­gangs­reinum á stofn­brautum eins og Kringlu­mýr­ar­braut­inni gerir það ekki vist­legt að labba á Kringlu­mýr­ar­braut­inni út í strætó­skýli. Þú þarft að gera meira en það til að það velti ein­hverju alvöru hlassi í ferða­venj­u­m,“ segir Hrafn­kell og bætir við að umhverfið þurfi að verða með þeim hætti að fólk upp­lifi sig bæði öruggt og vel­kom­ið.

„Ég hjóla nær dag­lega með­fram Kringlu­mýr­ar­braut­inni til og frá vinnu og það er ekki vist­legt umhverfi. Það er vissu­lega miklu betra eftir að það kom sér hjóla­stíg­ur, en maður er and­andi að sér svifryki og það er hávaði frá umferð­inni. Manni langar að vera eins fljótur og maður mögu­lega getur á þessum legg leið­ar­inn­ar. Þetta fer ekki sam­an, það verður að búa til allt, allt öðru­vísi umhverfi og verja plássi í almenn­ings­sam­göng­ur, stækka svæðið sem gang­andi hafa og bæta hjóla­stíg­ana. Tala nú ekki um þegar það er komin bylt­ing í örflæð­inu, sem þarf líka sitt pláss. Allt þetta kallar á pláss og þetta pláss þarf að sækja eitt­hvert,“ segir Hrafn­kell.

Hann seg­ist bera virð­ingu fyrir þeim verk­fræð­ingum og skipu­lags­fræð­ingum sem hafa beitt sér innan raða ÁS í opin­berri umræðu á síð­ustu mán­uð­um, en að ein­hverju leyti séu þeir þó „fastir í þeim skóla sem var á mót­un­ar­ár­un­um“, þeim árum er Stór-Reykja­vík var skipu­lögð og byggð upp sem bíla­borg og mikið pláss á milli húsa helgað umferð einka­bíla.

„Að­al­skipu­lagið 1962 var ekk­ert sól­ó-­fyr­ir­bæri hér. Í Evr­ópu og í Banda­ríkj­unum og um allan heim fékk þessi móderníska skipu­lags­nálgun braut­ar­gengi. En hún hefur alls staðar gengið sér til húð­ar. Hún gerði það lík­lega einna síð­ast hér, því við vorum til­tölu­lega fá og höfðum nægt pláss. Það er ekki fyrr en síð­ustu ára­tugi sem þessi stefna er virki­lega farin að bíta í aft­ur­end­ann á sér, eitt­hvað sem gerð­ist strax í evr­ópsku borg­un­um,“ segir Hrafn­kell og nefnir að nei­kvæðu áhrifin af skipu­lags­á­kvörð­unum á ofan­verðri 20. öld hafi ekki að fullu komið í ljós fyrr en um og eftir alda­mót.

„Þá vorum við bara orðin það mörg hérna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og búin að smyrja byggð­inni uppum holt og hæðir og farin að upp­lifa veru­legar umferð­ar­tafir“ segir Hrafn­kell og nefnir að umferð hafi auk­ist umfram fólks­fjölg­un. „Það var það sem einmitt kom úr þessum grein­ingum okk­ar, þegar við vorum að horfa til baka til 1985, þá hafði til dæmis umferðin á milli Hafn­ar­fjarðar og Reykja­víkur fjór­fald­ast. Vöxt­ur­inn í íbúum hafði á sama tíma ekki verið nema um 50 pró­sent. Sam­hengið þarna á milli er bara eitt­hvað absúrd, sem getur ekki gengið áfram.“

Hann segir suma fest­ast í skipu­lags­myndum sínum og að það sé áskorun alls fag­fólks að halda við þekk­ing­unni og fersk­leik­an­um. „Ég er búinn að semja við góðan vin minn um að hnippa í mig ef ég fer að berj­ast gegn nýj­ungum þegar ég verð kom­inn á eft­ir­launa­ald­ur­inn jafn­vel þó það bein­ist að ein­hverjum verk­efnum sem ég hef átt þátt í að móta. Ég lít á það sem þátt í við­halda sjálfum mér. En svo grunar mig að það sé líka bara póli­tík í þessu,“ segir Hrafn­kell og bætir við að þetta sé allt partur af „há­vað­an­um“ sem áður hafði verið til umræðu.

Hver borgar fyrir bíla­stæð­in?

„Við verðum mikið vör við þennan hávaða en stærstur hluti fólks er ekki að taka svona harða afstöðu. Auð­vitað eru flest öll til í að vera fljót­ari í förum um höf­uð­borg­ar­svæðið og það getur hljó­mað vel að heyra að það sé bara hægt að bæta við mis­lægum gatna­mót hérna og öðrum þarna. En þú kemur alltaf að trekt­inni, það skiptir eig­in­lega engu hvort þú kom­ist aðeins hraðar í gegnum ein gatna­mót, það eru alltaf þau næstu sem bíða. Og á end­anum þarftu bíla­stæði fyrir þetta allt sam­an. Þrjá­tíu hekt­arar af landi fyrir bíla­skammt eins árs er ekk­ert smá og kostn­að­ur­inn við að gera þau deilist fyrst og fremst á heim­ili og fyr­ir­tæki.“ segir Hrafn­kell og minnir á að sá kostn­aður marg­fald­ist ef um er að ræða bíla­stæði í bíla­stæða­kjöll­ur­um.

„Íbúðin sem þú ætlar að kaupa þér verður miklu dýr­ari. Bíla­stæði kostar kannski 6-10 millj­ónir og ef þú ætlar að kaupa þér íbúð á 50 millj­ónir þá er hel­víti dýrt að þurfa að borga upp undir 10 millj­ónir í bíla­stæði. Þetta er orðið lang­dýrasta her­bergið í hús­in­u.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiViðtal