Joe Biden Bandaríkjaforseti setti háleit markmið fyrir þjóð sína í bólusetningum gegn COVID-19: Að minnsta kosti 75 prósent fullorðinna áttu að vera komin með eina eða tvær sprautur í sumar. Hann hafði allt til alls til verksins; nóg af bóluefni, góða innviði í heilbrigðisþjónustunni. Dreifing efnanna var heldur ekki stórt vandamál. En þegar bólusetningarhlutfallið nálgaðist 40 prósent fór skyndilega eitthvað að breytast. Heilbrigðisstarfsfólk beið tilbúið með skammtana. En færri og færri mættu til að fá þá. Andstaða við bólusetningar, sem hefur almennt verið vandamál í Bandaríkjunum í áraraðir, kom bersýnilega í ljós. Henda hefur þurft að minnsta kosti 15 milljónum skammta í Bandaríkjunum frá því í mars af þessum sökum.
Og þessi svokallaða bólusetningartregða hefur orðið til þess að í dag eru aðeins 53 prósent Bandaríkjamanna fullbólusettir. Þeim býðst nú að fá örvunarskammta – þótt það útspil Bidens sé þvert á ráðleggingar sérfræðinga. Stóra vandamálið sé ekki dvínandi virkni bóluefnanna sem kalli á þriðja skammtinn heldur sú einfalda staðreynd að stór hluti þjóðarinnar hefur ekki í hyggju að fá einn einasta.
Nú hefur Biden loks misst þolinmæðina. Eftir að hafa hvatt fólk með varfærnum hætti til að fara í bólusetningu, notað orð á borð við „samstöðu“ til að höfða til þess, er komið allt annað hljóð í strokkinn. Og skilaboðin: Ef þið eruð óbólusett þá þurfið þið að borga því þið eruð að ógna heilsu þjóðarinnar.
Biden tilkynnti á fimmtudag að héðan í frá yrði ekki farið sérstaklega mjúkum höndum um þá sem vilja ekki láta bólusetja sig. Allir þeir sem störfuðu hjá hinu opinbera og einkafyrirtækjum með fleiri en 100 starfsmenn skulu láta bólusetja sig. Annars eiga þeir yfir höfði sér fjársektir. Ákvörðunin mun hafa áhrif á meirihluta vinnumarkaðarins.
Biden beindi orðum sínum til þeirra 80 milljóna fullorðinna Bandaríkjamanna sem enn hafa ekki þegið bólusetningu. „Þessi 25 prósent gætu valdið miklum skaða og þau eru þegar farin að gera það,“ sagði Biden. „Óbólusettir yfirfylla sjúkrahúsin okkar. Bráðadeildum hefur þurft að breyta í gjörgæslur svo fólk sem glímir við aðra alvarlega sjúkdóma fær þar ekki pláss.“
Hann var harðorður í garð fólks sem berst gegn grímunotkun og sagði því að „sýna virðingu“.
Biden hefur hingað til ekki viljað styggja þann stóra hóp sem vill ekki bólusetningu. Hann hefur frekar viljað reyna hina leiðina – hvetja og styðja. En þetta hefur ekkert gagnast honum þegar kemur að stuðningi við hann sjálfan. Demókratar eru upp til hópa búnir að láta bólusetja sig. Bólusetningarherferð Bidens naut gríðarlegs fylgis meðal þeirra. En fylgi þeirra við Biden sjálfan hefur dalað, samhliða því að faraldurinn hefur dregist á langinn, ekki síst vegna þess að alltof margir eru enn óbólusettir.
Í upphafi andvígur skyldubólusetningum
Í desember, áður en herferðin hófst, sagðist Biden vera andvígur því að skylda fólk í bólusetningu. Hann hefur þó síðustu mánuði tekin nokkur skref frá þeirri stefnu sinni og það stærsta var stigið í vikunni.
Ýmis mistök hafa svo verið gerð í viðbrögðum við farsóttinni. Grímuskylda var t.d. afnumin í maí en fólk áfram hvatt til að bera þær, ekki síst hinir óbólusettu. En það var einmitt sá hópur sem tók grímurnar fyrst niður og neitaði að setja þær upp aftur.
Svo kom sumar. Og svo kom delta.
Þetta sumar delta-afbrigðisins kostaði fjölmörg mannslíf. Í vor létust um 300 Bandaríkjamenn daglega vegna COVID-19. Í byrjun september var fjöldinn í kringum 1.500 manns á dag.
Reynið bara
Biden og hans stjórn vildi fara varlega í að skylda fólk í bólusetningu. Setja málin upp þannig að jú, þú hefur enn val um bólusetningu, en ef þú ert ekki bólusettur, getur þú ekki unnið hjá hinu opinbera. Því þá setur þú aðra í hættu. Lífshættu mögulega. Þetta hefur vissulega ekki farið vel ofan í alla. Og líklegt að einhverjir reyni að fara með málið fyrir dómstóla. Framkvæmdastjórn Repúblikanaflokksins er þegar að velta slíkri málssókn fyrir sér. „Reynið það bara,“ sagði Biden.
Nýjar kannanir hafa líka sýnt að margt óbólusett fólk (40 prósent) myndi líklega frekar segja upp starfi en að láta undan kröfu um bólusetningu. Um 35 prósent svarenda sögðu að þeir myndu reyna að fá undanþágu frá bólusetningu af ýmist heilsufars- eða trúarástæðum. Aðeins 16 prósent sögðust ætla að fara í bólusetningu ef krafa yrði gerð um slíkt.