Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, og aðrir leiðtogar G20-ríkjanna hafa komist að samkomulagi um 15 prósent lágmarksskatt á alþjóðleg stórfyrirtæki. Samkomulagið var til umfjöllunar á ráðstefnu ríkjanna sem hófst í Róm í dag. Markmið skattlagningarinnar er að koma í veg fyrir að stórfyrirtæki á borð við Apple og Bristol Myers Squibb nýti sér skattaskjól eða „skattaparadísir“ þar sem fyrirtækjaskattar eru lágir og fyrirtækin þurfa lítið annað að gera en að skrá höfuðstöðvar sínar í viðkomandi ríki.
Samkomulagið hefur verið í vinnslu í mörg ár undir handleiðslu OECD en um er að ræða stefnubreytingu og stórt skref í átt að umbótum á alþjóða skattkerfinu og er meðal annars liður í að koma böndum á starfsemi fyrirtækja sem fer að mestu leyti fram á netinu. Sjö af ríkustu löndum heims; Bandaríkin, Bretland, Þýskaland, Frakkland, Ítalía, Kanada og Japan, undirrituðu samkomulagið í sumar en með samþykktinni á ráðstefnu G20 ríkjanna í dag bætast um 130 ríki í hópinn. OECD gerir ráð fyrir að samkomulagið leiði til 150 milljarða dollara í alþjóðlegar skatttekjur árlega frá fyrirtækjum sem annars geta flúið í skattaskjól.
„Við höfum komist að sögulegu samkomulagi um heiðarlegra og réttlátara skattkerfi,“ sagði Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, eftir undirritun samkomulagsins í dag. Svo virðist sem víðtæk sátt leiðtanna 19, auk forystu Evrópusambandsins, sé um samkomulagið.
Blaðamenn New York Times setja ákvörðunina í samhengi við þróun skattamála í Bandaríkjunum undir leiðsögn Biden. Ríkisstjórn hans lagði til dæmis fram tillögu um að byrja að skattleggja fjármagnstekjur sem næmu yfir einni milljón bandaríkjadala til jafns við launatekjur í efsta þrepi, sem myndi þýða að allt að 39,6 eða 43,4 prósenta skatt á tekjur sem í dag bera 20 prósent skatt. Hvaða fyrirtækjaskatta varðar lagði Biden til við þingið að tekjuskattur fyrirtækja hækkaði upp í 28 prósent, en fyrirtækjaskatturinn í Bandaríkjunum er í dag flatur 21 prósent skattur af hagnaði. Hækkunin myndi þannig draga þannig til baka að hluta skattalækkun frá forsetatíð Donalds Trump, sem lækkaði hlutfallið úr 35 prósentum í 21.
Engin áform um hækkun fyrirækjaskatts í endurskoðaðri fjárhagsáætlun
Lítið fór fyrir skattamálum í endurskoðaðri fjárhagsáætlun, tilraun til að sameina demókrata, sem Biden kynnti rétt fyrir brottförina til Rómar. Áætlunin hljóðar upp á 1,75 billjónir bandaríkjadala, eða sem nemur um 225 billjónum króna, og mun upphæðin að mestu renna til félagsmála. Ekkert er að finna um hækkun á fyrirtækjaskatti í áætluninni en þess í stað er kynntur til sögunnar nýr tvenns konar 15 prósenta lágmarksskattur. Leggst hann annars vegar á tekjur sem bandarísk fyrirtæki afla erlendis og hins vegar á hagnað sem stór fyrirtæki skila til hluthafa. Í áætluninni er einnig kveðið á um refsiaðgerðir á fyrirtæki sem starfa í Bandaríkjunum en eru með höfuðstöðvar í ríkjum sem eru ekki hluti af samkomulaginu um samræmdan alþjóðlegan fyrirtækjaskatt.
Stjórn Biden telur að með þessum breytingum, auk nokkurra annarra, á skattkerfinu leiði til 350 milljarða bandaríkjadala í skatttekjur næstu tíu árin. Endurskoðuð fjárhagsáætlun á enn eftir að fara í gegnum þingið og óljóst er hvort Biden hafi meirihluta.
G20-ráðstefnunni lýkur á morgun og er merkileg að mörgu leyti að þessu sinni. Þetta er í fyrsta sinn sem leiðtogarnir hittast eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á. Þetta er sömuleiðis í fyrsta sinn sem ráðstefna ríkjanna er haldin í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26) en leiðtogar ríkjanna munu fara rakleiðis til Glasgow frá Róm á morgun þegar ráðstefnu G20-ríkjanna lýkur og COP26 hefst formlega.