Forsvarsmenn hvers konar hagsmunasamtaka í atvinnulífinu eiga ekki að taka þátt í umfjöllun sem tengist verðlagningu eða annarri markaðshegðun fyrirtækja. Þetta segir Samkeppniseftirlitið í tilkynningu sem send var á fjölmiðla fyrr í dag.
Í tilkynningunni minntist stofnunin sérstaklega á ummæli framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins um að það væri mjög líklegt að yfirstandandi vöruskortur á alþjóðavísu myndi valda verðhækkunum á einhverjum vöruflokkum. Einnig voru talin upp ummæli frá framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu og formanni Bændasamtakanna um líklegar verðhækkanir á næstunni.
Samkvæmt Samkeppniseftirlitinu verða samtök fyrirtækja að fara afar gætilega þegar kemur að umræðu og fræðslu sem getur haft áhrif á markaðshegðun félagsmanna sinna, líkt og kveðið er á í samkeppnislögum. Sérstaklega sé brýnt að gætt sé að þessu þegar fákeppnismarkaðir eiga í hlut og efnahagserfiðleikar steðja að.
„Á samkeppnismarkaði á hækkun á aðfangaverði ekki að leiða sjálfkrafa til hækkunar á verði til neytenda,“ segir Samkeppniseftirlitið í tilkynningunni sinni. „Samkeppnislög gera ráð fyrir því að hvert og eitt fyrirtæki geri eigin ráðstafanir og taki sjálfstæðar ákvarðanir til að bregðast við slíkum áskorunum á sínum eigin rekstrarlegu forsendum og án alls samráðs við keppinauta eða hvatningar frá hagsmunasamtökum.“
Samkeppniseftirlitið beinir því einnig til neytenda að vera á varðbergi gagnvart verðhækkunum framundan, en hægt sé að beina ábendingum um slíkt til Neytendasamtakanna, verðlagseftirlits ASÍ, eða Neytendastofu. Hægt er að lesa tilkynningu eftirlitsins í heild sinni hér.