Bill Gates, stofnandi Microsoft og fjórði ríkasti maður heims, hyggst láta af hendi nánast hverja krónu auðæfa sinna, sem nema um 113 milljörðum bandaríkjadala. Munu þau öll renna til mannúðarsjóðs í hans nafni.
Gates tilkynnti í vikunni um 20 milljarða dala framlag í sjóðinn, sem hann stofnaði ásamt þáverandi eiginkonu sinni, Melindu Gates, árið 2000, og sagði að framlög úr sjóðnum myndu hækka úr 6 milljörðum dala á ári í 9 milljarða dala á ári árið 2026. Það yrði ekki síst gert vegna vaxandi óstöðugleika í heiminum vegna heimsfaraldurs og stríðs í Úkraínu.
Bill Gates varð ríkasti maður heims árið 2010 og tilkynnti það sama ár að hann hyggðist gefa öll auðævi sín. Gates hélt titlinum út árið 2013 og er nú fjórði ríkasti maður heims. Síðan hann fékk titilinn hefur eiginfé hans tvöfaldast.
Í færslu á Twitter sagðist Gates til framtíðar ætla að gefa öll auðævi sín til sjóðsins. Þannig muni hann færast neðar á lista yfir ríkasta fólk heims og á endanum falla af listanum.