„Ef að mínum tíma sem formanni lýkur í þessu kjöri þá er mínum tíma í stjórnmálum bara lokið. Það er ekkert flóknara en það.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, á Sprengisandi í Bylgjunni í morgun.
Fastlega er gert ráð fyrir að Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, muni greina frá ákvörðun sinni á fundi í Valhöll eftir hádegi að hann ætli að fara fram gegn Bjarna í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins sem fram fer um næstu helgi.
Bjarni og Guðlaugur Þór töluðu saman í morgun en Bjarni sagði Guðlaug verða að „eiga sitt móment“ þegar hann var inntur eftir svari hvort Guðlaugur ætli að bjóða sig fram gegn honum. „Það er í lagi mín vegna,“ sagði Bjarni og átti þá við að Guðlagur greini sjálfur frá ákvörðun sinni.
Bjarni hefur gegnt formennsku í flokknum í 13 ár og greindi frá því í ágúst að hann sækist áfram eftir að leiða Sjálfstæðisflokkinn.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram næstu helgi og er sá fyrsti frá því í mars 2018. Tvö þúsund landsfundarfulltrúar, víða að á landinu, eiga sæti á fundinum og hafa kosningarétt í kjöri til formanns.