Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um útgönguskatt á erlenda kröfuhafa sem vilja fara með eignir sínar úr landi. „Þaðan af síður hef ég boðað einhverja tiltekna prósentu, sem menn eru farnir að vísa til,“ sagði Bjarni á þingi fyrir skemmstu.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Bjarna um grein fjögurra InDefence manna í Kjarnanum í gær, þar sem þeir viðruðu hugmyndir um 60 prósenta útgönguskatt á kröfuhafa sem vilja fara með eignir sínar frá Íslandi.
Katrín spurði Bjarna einnig um afstöðu hans til þess að áætlun um losun hafta sé leynileg, eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði síðast á mánudag að væri nauðsynlegt. Katrín spurði hvort það væri ekki einmitt mikilvægt að almenningur í landinu sé upplýstur um losun hafta, vegna þess að málið geti haft mjög mikil áhrif á almenning.
Bjarni að menn yrðu „að fara varlega í að úttala sig um allar sínar hugsanir og valkosti sem eru til staðar.“ Það þjóni ekki hagsmunum Íslands að opinbera alla mögulega sem séu til skoðunar samstundis. Þá sé ekki hægt að hafa mjög opinskáa umræðu meðal annars vegna þess að „sérhvert orð í þeirri umræðu getur til dæmis haft áhrif á markaðina.“ Hann sagðist hins vegar fylgjandi því að peningamálastjórn og það sem viðkemur því að tryggja stöðugleika eigi að vera í opinberri umræðu.
„Ég tek undir með háttvirtum þingmanni þegar kemur að því að við þurfum að kynna öll skref sem við hyggjumst taka mjög rækilega en við getum ekki gert það fyrr en það hefur verið tekin ákvörðun um hvað við ætlum nákvæmlega að gera.“