Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að þegar væri búið að semja um launahækkanir sem færu „langt fram yfir“ mörk sem framleiðniaukning í hagkerfinu setur, og ekki væri við öðru að búast en að þetta myndi skila sér í aukinni verðbólgu og hærri vöxtum.
Ekki væri svigrúm fyrir meiri launhækkanir en þegar hefði verið samið um, sagði Bjarni. Á undanförnum tveimur árum hefur verið samið á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, um launahækkanir um á bilinu 20 til 30 prósent á næstu þremur árum.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, spurði Bjarna á Alþingi hvers vegna ítrekað hefði komið til verkfalla opinberra starfsmanna undanfarið og hvernig hann ætlaði að leysa úr kjaraviðræðunum. Sagði Svandís, að kröfur félagsamanna SFR og sjúkraliða sem nú eru í verkfalli væru sanngjarnar.
Lögreglumenn standa einnig í erfiðum kjaradeilum við ríkið, og algjör óvissa ríkir um hvort það takist að semja á næstunni. Á fundi Landssambands lögreglumanna í dag samþykkti stjórn félagsins harðorða ályktun þar sem meðal annars segir: „Tími er til kominn að fagurgala stjórnvalda og stjórnmálamanna linni í garð stéttarinnar og þess fari að sjást merki í efndum þeirra að löggæsla á Íslandi er ein af grunnstoðum samfélagsins og sú staðreynd endurspeglist í fjölda lögreglumanna, fjárframlögum til löggæslu og launakjörum lögreglumanna.“
Bjarni sagði þegar hann svaraði Svandísi að hann teldi að farsæl niðurstaða myndi vonandi nást, það væri markmiðið. Nú væri verið að leggja drögin að nýju vinnumarkaðsmódeli og sagðist hann telja Íslendinga aldrei hafa verið eins nærri því að ná því markmiði eins og nú. Með því ætti að reyna að horfa fram í tímann, og horfa til þess að bæta kjörin með sjálfbærum hætti.
Í umfjöllun mbl.is, er vísað til svars Bjarna þar sem hann segir síendurtekin verkföll og kollsteypur vera saga íslensks vinnumarkaðar. Hann hafði kynnst þessu eigin skinni, og meðal annars útskrifast úr MR með skólaeinkunn en ekki próf og slíkt hafi einnig verið upp á teningnum í grunnskóla.