„Ég hef unnið með þeim öllum og þekki mörg hver orðið býsna vel. Þess vegna veit ég af eigin raun að þau geta unnið undir álagi, þau virða skoðanir annarra og þau eru heiðarlegt fólk sem maður getur treyst,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um aðra stjórnmálaleiðtoga landsins, í tilefni af skoðanakönnun MMR á persónueiginleikum stjórnmálaleiðtoga landsins.
Bjarni skrifar um könnunina á Facebook í kvöld þar sem hann spyr hvort hægt sé að mæla heiðarleika fólks með skoðanakönnun. Hann segir könnunina tilvalda til að auglýsa MMR og til þess sé leikurinn væntanlega gerður. „En um leið spyr maður sig hvort enginn telji þörf á að beita gagnrýninni hugsun þegar svona lagað er birt. Erum við virkilega í svo slæmum málum að það sé óþarfi að efast þegar „stjórnmálastéttin“ fær falleinkunn?“
„Þar sem það er ekkert offramboð á fólki til að taka upp hanskann fyrir stjórnmálamenn ætla ég að gera það sjálfur,“ segir Bjarni.
Hann segir margar spurningar vakna við lestur könnunarinnar. „Ein þeirra er: Hvernig er hægt að halda því fram að einstaklingar sem hafa sjálfir stofnað stjórnmálaflokk og hlotið kosningu á þing ásamt fjölda þingmanna séu ekki leiðtogar, hvort sem þeir hafi fæðst sem slíkir eða ekki. Og hvað er átt við með þeirri spurningu - að vera fæddur leiðtogi? Hvernig fer sú mæling fram og hvenær, nákvæmlega?
En það er kannski ekki nema von að ég átti mig ekki á þessu öllu saman, enda eru víst 95% sem telja að ég sé ekki í neinum tengslum við almenning,“ skrifar Bjarni.
Er hægt að mæla heiðarleika fólks með skoðanakönnun? Meirihluti þátttakenda í skoðanakönnun MMR sem birt var í gær...Posted by Bjarni Benediktsson on Wednesday, April 29, 2015