Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir að hjúkrunarfræðingar krefjist 40 til 50 prósenta launahækkanna en ríkið hafi boðið þeim um það bil 20 prósenta hækkun á næstu árum. Þetta kom fram í svari Bjarna við óundirbúinni fyrirspurn Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, um kjaradeilurnar á þingi í dag.
„Það eru kröfurnar sem menn standa frammi fyrir, að ofan á þær almennu launahækkanir [...] verði bætt fyrir gliðnun upp á 14 til 25 prósent á næstu þremur árum,“ sagði Bjarni, og bætti því við að því væri krafan nærri því að vera 40 til 50 prósenta hækkun.
„Í þessu tiltekna máli, ef menn vilja vita það, þá hefur ríkið boðið um það bil 20 prósenta hækkun á næstu árum til hjúkrunarfræðinga. Ég get fullyrt það að laun hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndunum eru ekki að fara að hækka um þær fjárhæðir en það er langt í land með að jafna kjörin en það gerist ekki í einum samningi.“ Hann sagði hægt að bjóða verulegar kjarabætur og meiri stöðugleika, „en það er ekki hægt að fallast á allar kröfur.“