Sjálfstæðisflokkurinn þarf að breytast í takt við þær breytingar sem orðið hafa á samfélaginu undanfarna áratugi. Slípa þarf áherslur hans þannig að flokkurinn nái betur til þeirra sem byggja landið í framtíðinni og horfa þarf til nýrra tækifæra. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið mjög stíft til varna um stefnu sína í sjávarútvegs- og orkunýtingarmálum og sýn fólks á flokkinn hefur takmarkast við þessa málaflokka, sem sé „rangt og illa lýsandi“ fyrir það sem flokkurinn standi fyrir. Þetta segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við DV í dag.
Færð áheyrn ef þú vilt breyta
Sjálfstæðisflokkurinn hefur mælst í mikilli lægð í skoðanakönnunum. Bjarni útskýrir þá lægð með því að segja undarlega tíma vera í stjórnmálum. Rof sé á milli kjósenda og stjórnmálaflokka. Öllum nýjum stjórnmálaflokkum hafi einnig reynst auðveldara að fá áheyrn eftir hrun. „Ég hef tilhneigingu til að segja að um þessar mundir færðu áheyrn ef þú segist vilja breyta, óháð því hverju þú vilt breyta. Svo hjálpar mikið til ef þú hefur enga pólitíska fortíð.“
Bjarni telur rofið hins vegar vera brúanlegt „Varðandi traustið þá tel ég að það muni á endanum haldast í hendur við hvernig gengur að draga fram lífið á Íslandi. Hvernig gengur að þétta samfélagssáttmálann sem verður að vera til staðar. Þar vísa ég til þess sáttmála sem verður að vera í gangi og tryggir að mönnum ofbjóði ekki framganga ákveðinna afla, hópa eða hvernig komið er fram við þá sem standa höllum fæti í samfélaginu. Sá sáttmáli er límið í okkar samfélagi.“
Vill taka Sjálfstæðisflokkinn inn í nýjar lendur
Hann segir tímabært að snúa sér að hinum nýju stoðum hagkerfisins í áherslum flokks hans, sem oft er sagður bara vilja virkja meira og vernda fiskveiðistjórnunarkerfið. „Nú erum við komin með það öflugt hagkerfi og þróað menntakerfi og í raun öflugt samfélag að okkar næstu stóru skref eiga að vera inn á ný svið. Verðmætasköpun á nýjum sviðum sem eiga sér takmarkalausa vaxtarmöguleika. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að taka þetta skref með þjóðinni. Ég vil sjá okkur meira afgerandi í umræðu á þessum sviðum. Ísland mun ekki bara snúast um fisk og ál þó að það séu mikilvægir þættir. Ég vil taka Sjálfstæðisflokkinn inn á þessar nýju lendur og við þurfum að einbeita okkur að því að teikna upp framtíðarsýn á þessum vettvangi. Við getum ekki látið stjórnmálaumræðuna bara snúast um gömlu stoðirnar, hversu mikilvægar sem þær eru.“
Bjarni segir að menn hafi viljað gera ágreining um auðlindanýtingu á Íslandi við Sjálfstæðisflokkinn.„Mér finnst ekki standast nema brot af því sem haldið er fram um flokkinn og stefnu hans í þessum málaflokkum. Það verður að koma sá tímapunktur að við náum sátt um þessi mál og að því erum við svo sem að vinna. Með breytingum á auðlindaákvæði í stjórnarskrá og fiskveiðistjórnunarkerfinu og til dæmis breytingar á eigendastefnu Landsvirkjunar. Allt eru þetta skref í þá átt að taka þessi stóru mál úr daglegri átakaumræðu stjórnmálanna.“
Efins um að vera í stjórnmálum eftir áratug
Hann segist frekar efins um að hann verði enn í stjórnmálum eftir tíu ár, enda væri hann þá búinn að vera í þeim í 22 ár. Ég sá mig aldrei fyrir mér í svo langan tíma sem virkan í stjórnmálum. En fyrst og fremst vonast ég eftir því að vera áfram sprækur á líkama og sál og geta sinnt einhverju skemmtilegu og hafa góðan tíma til að sinna fjölskyldunni og hafa hana hjá sér.“