„Ég lýsi Bjarna Benediktsson réttkjörinn formann Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Kristín Edwald er hún hafði kynnt niðurstöður kosningar í formannskjöri á landsfundi flokksins í dag.
Bjarni hlaut 1.010 atkvæði eða 59,4 prósent en Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hlaut 687 atkvæði eða 40,4 prósent. 1.712 landsfundarfulltrúar kusu og voru 1.700 atkvæðanna gild. Þrjú atkvæði voru greidd öðrum en frambjóðendunum tveimur.
„Við skulum snúa bökum saman,“ sagði Bjarni er úrslitin voru kunn. „Saman erum við ósigrandi.“
Guðlaugur óskaði Bjarna „innilega til hamingju með glæsilegt kjör“. Hann sagðist hafa boðið sig fram því hann hefði einlæga trú á því að hægt væri að gera betur í Sjálfstæðisflokknum. „Þessi landsfundur er fyrsta skrefið í því.“
Núna liggur það fyrir að Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði Guðlaugur Þór, „og við styðjum hann til þeirra verka.“
Bjarni hefur verið formaður frá árinu 2009 eða í þrettán ár.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er ein í framboði til varaformanns en um embætti ritara keppast þau Bryndís Haraldsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Helgi Áss Grétarsson. Úrslit í því kjöri skýrast síðar í dag.