Samkvæmt fyrstu niðurstöðum úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi munu Bjarni Benediktsson, Jón Gunnarsson og Bryndís Haraldsdóttir skipa efstu sæti listans í komandi alþingiskosningum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum á Facebook.
Samkvæmt tilkynningunni höfðu alls um 4.700 manns greitt atkvæði í prófkjörinu þegar kjörstöðum var lokað kl. 18:00 í dag. Nú hafa 1419 atkvæði verið talin, eða um 30 prósent heildaratkvæðanna. Samkvæmt þeim settu 82 prósent kjósenda Bjarna í fyrsta sætið.
Í öðru sæti prófkjörsins er svo Jón Gunnarsson, en alls hefur 371 atkvæði verið talið í hans nafni í fyrsta til annað sætið. Bryndís Haraldsdóttir vermir svo þriðja sætið með 474 atkvæði í fyrsta til þriðja sætið.
Óli Björn Kárason er í fjórða sæti með 587 atkvæði í fyrsta til fjórða sæti og Arnar Þór Jónsson er í því fimmta með 696 atkvæða í fyrsta til fimmta sæti. Í sjötta sæti er svo Sigþrúður Ármann með 787 atkvæði í fyrsta til sjötta sæti.