Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra telur að niðurstöður Gylfa Zoega hagfræðiprófessors um fjármögnun heilbrigðiskerfisins, sem settar voru fram í nýlegri grein í Vísbendingu, séu „hátimbraðar“ eins og hann horfi á það.
Bjarni var spurður út í niðurstöður Gylfa í pallborðsumræðum á meðal fulltrúa stjórnmálaflokkanna sem Alþýðusamband Íslands stóð fyrir í dag. Gylfi komst að þeirri niðurstöðu í grein sinni að færa mætti rök fyrir því að Landspítalann skorti fjármagn, þrátt fyrir að fjárframlög til hans hefðu hækkað töluvert á síðustu árum.
Hagfræðiprófessorinn sagði að ef tillit væri tekið til launahækkana þá hefðu fjárframlög hins opinbera til Landspítalans ekki aukist jafn mikið og þörfin fyrir sjúkrahúsþjónustu á síðustu árum og benti á að í umræðum um fjármögnun þjóðarsjúkrahússins, sem staðið hafa yfir undanfarnar viku, mætti því segja að bæði stjórnmálamenn og stjórnendur spítalans hefðu nokkuð til síns máls.
Bjarni sagði að niðurstöður Gylfa hefðu „miðað við ákveðnar gefnar forsendur um vænta þjónustuþörf spítalans fram á við reiknað og svo framvegis“ og bætti því við að um væri að ræða „mjög hátimbraðar niðurstöður eins og ég horfi á það.“
Bjarni vék síðan talinu að öðru en niðurstöðum hagfræðingsins og sagði að staðreyndin væri sú að Íslendingar hefðu aldrei sett meira af því sem ríkissjóður hefði úr að spila í heilbrigðismál. „Við höfum aldrei sett jafn hátt hlutfall af tekjunum í þennan málaflokk,“ sagði Bjarni og skaut Logi Einarsson formaður Samfylkingar því þá inn í umræðuna að þjóðarframleiðslan hefði lækkað verulega.
Sagði Sjálfstæðisflokkinn ekki kalla eftir stórauknum einkarekstri
Bjarni sagði heilbrigðismálin þó áskorun og að allar þjóðir stæðu frammi fyrir gríðarlegri áskorun á sviði heilbrigðismála um þessar mundir. „Við erum líka að eldast sem þjóð, ef að fólki finnst heilbrigðiskerfið dýrt í dag þá er ég með skilaboð, þetta verður dýrara í framtíðinni,“ sagði Bjarni.
Fjármálaráðherra sagði að af þessum sökum ættum við allt undir því að vera með skilvirkt kerfi og sagði flöskuhálsana allt of marga í kerfinu í dag. „Ég verð bara að viðurkenna það,“ sagði Bjarni og bætti við að það virtist vanta betri heildarstýringu í heilbrigðiskerfið.
Fjölmiðlamaðurinn Kristján Kristjánsson, sem stýrði pallborðsumræðum ASÍ, spurði Bjarna að því hvort vilji Sjálfstæðisflokksins stæði til þess að einkarekstur í kerfinu yrði meiri en hann er í dag. Bjarni sagði svo ekki vera, Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki að kalla eftir því að það yrði stóraukinn einkarekstur í kerfinu.
Hann sagði þó að það væri bagalegt að hafa lausa samninga við sérfræðinga í einkarekstri og við þá ætti að semja og gera um leið „hámarkskröfur“ um að ríkið væri að fá toppþjónustu fyrir féð sem varið væri í kaup á þjónustu einkaaðila. Hið sama ætti einnig að gilda um þá þjónustu sem veitt væri af hinu opinbera.