Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir að kominn sé tími til þess að endurskoða kjördæmaskipan og kosningalöggjöf í landinu. Í viðtali við Vísi eftir fund ríkisstjórnarinnar í dag sagði hann fyrir sitt leyti kæmi til greina að fjölga kjördæmum í landsbyggðunum.
„Ég finn til dæmis fyrir því þegar ég fer um landið að fólki finnst kjördæmin of stór og ef ég nefni þar að skera landsbyggðarkjördæmin upp í tvennt, að tvöfalda fjölda þeirra, þá fellur það mönnum mjög vel í geð. Menn fengju þannig meiri nálægð við sína fulltrúa á þingi og það fyndist mér alveg koma til greina,“ sagði Bjarni og bætti því við að það mætti spyrja sig hvaða vit væri í því að hafa Reykjavík í tveimur kjördæmum.
Fréttamaður Vísis spurði Bjarna út í þau sjónarmið sem sett hafa verið fram um að fjöldi jöfnunarþingsæta verði endurskoðaður til þess að jafna atkvæðavægi í landinu á milli flokka.
Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði hefur bent á að misvægi atkvæða á milli flokka, sem hefur verið til staðar allt frá 2009, megi leiðrétta með því að fjölga jöfnunarsætum með breytingum á kosningalögum. Hefur prófessorinn sagt það „Alþingi til skammar að hafa ekki brugðist við og fjölgað jöfnunarsætum strax eftir kosningarnar 2013“ og höfuðið verði bitið af skömminni ef Alþingi samþykki ekki að ráðast í slíkar breytingar fyrir kosningar haustsins.
Sagði þessu mál lítið hafa verið rædd
Bjarni sagði í viðtalinu við Vísi að lítil umræða hefði verið um þessi mál inni á þingi og þau ekki verið til skoðunar, en þó er það reyndar svo að bæði þingflokkar Viðreisnar og Pírata hafa lagt fram frumvörp á yfirstandandi löggjafarþingi sem hafa það að markmiði að jafna vægi atkvæða, ýmist á milli flokka eða landshluta.
Bjarni sagði að misvægi atkvæða væri „óheppilegt“ en hann sagði þó að það væri „engin trygging“ fyrir því að breytingar sem yrðu gerðar núna á fjölda jöfnunarmanna myndu leysa þetta misvægi á milli flokka, margar kosningar fram í tímann. Enda væri engin vissa um hve margir flokkar yrðu á þingi eftir komandi kosningar.
Þingmenn nær fólkinu
Einnig sagðist hann sjálfur sjá fyrir sér töluverðar breytingar á kjördæmafyrirkomulaginu og þá í þá átt að kjördæmin á landsbyggðinni yrðu fleiri og minni.
„Ég er búinn að mynda mér þá skoðun eftir mörg ár á þingi að þetta kjördæmafyrirkomulag sem við erum með í dag sé ekkert svakalega heppilegt. Það var ágætis breyting á sínum tíma en mér finnst komin tími til að taka það upp til endurskoðunar og ég myndi vilja sjá minni kjördæmi út um landið. Það þýðir ekkert endilega fleiri þingmenn, og kannski einmitt ekki, sérstaklega ekki ef við förum að hreyfa við atkvæðavæginu. En það myndi færa þingmennina nær fólkinu og yrði til góðs að mínu áliti,“ sagði Bjarni við Vísi.