Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, segir að Illugi Gunnarsson, mennta- og menningamálaráðherra, hafi hvergi farið út fyrir „eðlileg mörk“ með heimsókn sinni til Kína, en með honum í föruneyti voru meðal annars fulltrúar frá Orku Energy. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Haukur Harðarson, stjórnarformaður Orku Energy, keypti íbúð af Illuga, þegar hann var í fjárhagsvanda eftir hrunið, og leigir Illugi nú íbúðina af honum. Illugi hefur lýst Hauki sem nánum vini sínum og um vinagreiða hafi verið að ræða.
Illugi hefur sjálfur algjörlega þvertekið fyrir að hafa gengið of langt í því, að tala máli Orku Energy, í ljósi þeirra fjárhagslegu tengsla sem hann hafði við fyrirtækið, en segir það hafa verið mistök að upplýsa ekki um söluna á íbúðinni fyrr.
„Ég tel alveg augljóst að hann [Illugi] hafi hvergi farið út fyrir það sem eðlilegt er í því að koma fyrirtækinu á framfæri eða neitt slíkt í þessari heimsókn sinni til Kína. Það er aðalatriði þessa máls,“ sagði Bjarni í viðtali við RÚV.