Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist hafa trú á að það verði unnt að mynda nýja ríkisstjórn flokks hans með Vinstri grænum og Framsóknarflokki í næstu viku. Nýta þurfi komandi helgi og daganna þar á eftir vel og þá trúi hann því að vinnan fari að klárast. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir enn fremur að þótt tíminn sé naumur muni ný ríkisstjórn setja mark sitt á fjárlagafrumvarp næsta árs, að sögn Bjarna.
Í dag eru 39 dagar frá síðustu kosningum. Einu stjórnarmyndunarviðræðurnar sem átt hafa sér stað eftir þær eru á milli þeirra þriggja flokka sem störfuðu saman í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. Viðræður þeirra hafa nú staðið yfir í lengri tíma en það tók að mynda ríkisstjórn eftir kosningarnar 2017, þrátt fyrir að reynt hafi verið við tvö mismunandi form þá.
Yfirstandandi viðræður eru orðnar þær næst lengstu sem staðið hafa yfir í 30 ár. Eina skiptið sem það hefur tekið lengri tíma að mynda ríkisstjórn á því tímabili er eftir kosningarnar 2016, þegar reynt var við fjölmörg stjórnarmynstur áður en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartar framtíðar var mynduð 74 dögum eftir kosningar.
Fengu skýran meirihluta
Sitjandi ríkisstjórnarflokkar fengu góðan meirihluta í síðustu kosningum og bættu sameiginlega við sig þingmönnum, en þeir voru alls 37 eftir kosningar og urðu 38 eftir að Bigir Þórarinsson gekk óvænt í Sjálfstæðisflokkinn. Vinstri græn töpuðu þó umtalsverðu fylgi milli kosninga og Sjálfstæðisflokkurinn tapaði einnig lítillega, en Framsóknarflokkurinn bætti vel við sig. Sú staða hefur kallað á breytt valdahlutföll milli flokkanna og heimildir Kjarnans herma að búast megi við uppstokkun í því hvaða ráðuneyti hver flokkur fær og jafnvel fjölgun ráðuneyti, eða að minnsta kosti breyttum hlutverkum sumra þeirra.
Ólíkt því sem var eftir kosningarnar 2017 áttu flokkarnir líka aðra nokkuð skýra möguleika í stjórnarmyndun sem gætu, að minnsta kosti á blaði, átt meiri hugmyndafræðilega samleið. Vinstri græn og Framsóknarflokkur gætu myndað ríkisstjórn frá miðju til Vinstri með aðkomu Samfylkingar og Pírata. Sömuleiðis væri hægt að mynda ríkisstjórn frá miðju til hægri með Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Viðreisn, eða jafnvel Miðflokki. Þessir kostir hafa þó ekki verið kannaðir sem neinu nemur af sitjandi stjórnarliðum sem hafa einbeitt sér að því að endurnýja hið óvenjulega samstarf frá vinstri, yfir miðju og til hægri sem stofnað var til fyrir fjórum árum.
Loftslagsmál og aðgerðir vegna þeirra ásteytingarsteinn
Í fréttaskýringu sem Kjarninn birti á mánudag kom fram að stór og krefjandi verkefni væru framundan og það litaði viðræðurnar. Endurreisn efnahagslífsins eftir kórónuveirufaraldur og næsta stóra lota kjarasamningaviðræðna, sem hefst á fullu á næsta ári, skipta þar miklu.
Svo eru það skatta- og loftslagsmál og samspili þeirra við efnahagsstefnu næstu ríkisstjórnar.
Þar eiga stjórnarflokkarnir erfiðara að ná saman en annarsstaðar. Hugmyndir Vinstri grænna um aðgerðir til að bregðast við loftlagsvánni eru allt aðrar en hugmyndir hinna flokkanna tveggja, sem snúast um að uppistöðu um að virkja meira til að auka það magn af endurnýjanlegri orku sem Ísland getur nýtt, eða selt. Í stefnuskrá Vinstri grænna er hins vegar sagt að neyðarástand ríki vegna loftlagsmála, að flokkurinn vilji viðhalda rammaáætlun sem stjórntæki til að ákveða hvað verði virkjað og ef það þurfi nýjar virkjanir þurfi að ríkja sátt um það hvernig orkunnar er aflað. „Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins og í takti við vaxandi notkun, til að mæta fólksfjölgun og þörfum grænna og meðalstórra fyrirtækja en ekki í einstaka stórum stökkum.“
Uggur vegna loftlagsmálaskýrslu
Það hversu viðkvæm þessi mál eru sést vel á því að þegar íslensk stjórnvöld skiluðu skýrslu sinni um langtímaáætlun í loftlagsmálum til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) í aðdraganda COP26, loftslagsfundar Sameinuðu þjóðanna, sem hefst í Glasgow í Skotlandi í dag. Skýrslan var birt fyrir helgi og olli miklum titringi á bakvið tjöldin, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Í frétt stjórnarráðsins vegna birtingu skýrslunnar segir að hún byggi á fyrirliggjandi stefnumörkun og áætlunum og varpi „ljósi á þær ákvarðanir sem þarf að taka á næstu árum til að markmið Íslands um kolefnishlutleysi náist. Í skýrslunni er greint frá þegar samþykktum markmiðum stjórnvalda og síðan fjallað um mögulegar leiðir að kolefnishlutleysis.
Í skýrslunni, sem birt var af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu sem lýtur stjórn Guðmundar Inga Guðbrandssonar, varaformanns Vinstri grænna, var gerð grein fyrir fimm mismunandi sviðsmyndum um þróun samfélagsins og rýnt í áhrif þeirra á losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis fram til ársins 2040. Í einni sviðsmyndinni er gert ráð fyrir að álframleiðsla á Íslandi dragist saman um helming og í annarri að hún hverfi alveg. Þetta hefur farið öfugt ofan í hagsmunasamtök atvinnulífsins, sérstaklega þau sem gæta hagsmuna áliðnaðarins, og ýmsa innan stjórnarflokkanna sem líta á orkuskipti sem tækifæri til aukins hagvaxtar, en ekki sem tækifæri til að draga úr starfsemi mengandi iðnaðar á Íslandi. Heimildir Kjarnans herma að þessar sviðsmyndir hafi ekki verið ræddar sem neinu nemur milli stjórnarflokkanna áður en þær voru settar fram.
Skattamál, aukin kostnaður og heilbrigðismál
Skattamál verða líka erfið viðureignar hjá næstu ríkisstjórn. Framsóknarflokkurinn lofaði til að mynda því að taka upp þrepaskipt tryggingagjald og fleiri þrep í tekjuskatti fyrirtækja þar sem hreinn hagnaður fyrirtækja umfram 200 milljónir króna verður skattlagður á móti lækkun til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
Sjálfstæðisflokkurinn er enda með ólíkar áherslur en ofangreindar í flestum þessum málaflokkum.
Heilbrigðismálin eru líka flókið viðfangsefni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur mikinn áhuga á að taka yfir heilbrigðisráðuneytið og hefur talað fyrir auknum einkarekstri innan þess kerfis.
Framsóknarflokkurinn tók að hluta til undir þær áherslur í aðdraganda kosninga og sagðist vilja skoða „hvort frekari tilefni sé til aukins einkareksturs innan heilbrigðisgeirans.“
Vinstri græn vilja hins vegar auka fjárfestingu í innviðum heilbrigðiskerfisins og auka geta opinbera hluta þess, í stað þess að auka hluta einkageirans. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þurfti að sæta mikilli gagnrýni frá Sjálfstæðisflokknum á síðasta kjörtímabili vegna stefnu sinnar í málaflokknum og þykir ólíkleg til að samþykkja kúvendingu innan hans.