Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks og efnahags- og fjármálaráðherra, segist telja að niðurstaða flokksins í kosningum verði önnur en kannanir hafi sýnt, en samkvæmt þeim stefnir hann í sína verstu útkomu frá upphafi.
Í viðtali við Dagmál á mbl.is segir Bjarni að það sé enginn annar flokkur sem hafi „knésett“ Sjálfstæðisflokkinn og sé fyrir vikið nýi burðarásinn í íslenskum stjórnmálum. „Þetta er bara sundrung, þetta er ákveðinn glundroði. Það er til mikils tjóns, eins og ég horfi á hlutina, að það þurfi að gera jafnmiklar málamiðlanir við stjórnun landsins eins og stefnir í. Þetta kann ekki góðri lukku að stýra.“
Hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi alltaf metnað til að leiða ríkisstjórn og að hann myndi „glaður gera það ef niðurstöður kosninga gefa mér færi á að koma saman sterkri stjórn“. Í viðtalinu mærir Bjarni auk þess samstarfið við Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna og forsætisráðherra og Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Hann segir samstarfið hafa gengið vel og skynji ekki annað en að það sé upplifun hinna tveggja líka. „Því kæmi það mér á óvart ef það væri ekki vilji til þess að setjast að minnsta kosti niður og spá í spilin að loknum kosningum að því gefnu að við séum með meirihluta.“
Segir aðra hafa hafnað auðlindaákvæði
Bjarni ræðir líka auðlindaákvæði í stjórnarskrá í viðtalinu við Dagmál. Forsætisráðherra lagði fram frumvarp á kjörtímabili. Samkvæmt frumvarpinu áttu nokkur atriði stjórnarskrárinnar taka breytingum, yrði það samþykkt. Þar er um að ræða atriði sem fjalla um forseta Íslands, ríkisstjórnir, verkefni framkvæmdarvalds, umhverfisvernd, auðlindir í náttúru Íslands og íslensk tunga.
Mest var tekist á um hið svokallaða auðlindaákvæði sem segir til um að auðlindir séu í eigu þjóðar, en hluti stjórnarandstöðuflokka vill ganga lengra og tiltaka tímabindingu framsals þeirra í stjórnarskrá.
Þegar langt var liðið á þingið lá frumvarpið enn inni hjá stjórnskipunar- og eftirlits. Stærstur hluti stjórnarandstöðunnar vildi afgreiða frumvarpið út úr nefndinni svo það gæti fengið áframhaldandi þinglega meðferð og umræðu en fulltrúar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Miðflokks í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd felldu tillögu um það í sumar. Fyrir vikið verða engar stjórnarskrárbreytingar samþykktar á þessu kjörtímabili og engar slíkar munu taka gildi á því næsta þar sem tvö þing þurfa að samþykkja breytingar.
Bjarni segir í viðtalinu að það hafi verið stjórnarandstöðuflokkar sem hafa hafnað auðlindaákvæðinu, ekki stjórnarflokkarnir. Sjálfstæðisflokkurinn sé fylgjandi auðlindaákvæði í stjórnarskrá. „Við erum að meina að við styðjum breytingar á stjórnarskránni til þess að ná utan um það sem segir í lögum um stjórn fiskveiða, að þetta sé sameiginleg auðlind. Slíkt ákvæði kom fram á þessu kjörtímabili en þá er því hafnað á einhverjum nýjum forsendum. Nýju rökin eru þau og færð fram af flokkum sem vilja aðeins tímabundna samninga fyrir nýtingu á auðlindinni að ákvæðið verði að innihalda kröfuna um tímabundna samninga.“