Björg Bjarnadóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands og mun hún hefja störf 1. október næstkomandi. Hún tekur við starfinu af Flosa Eiríkssyni, sem lætur brátt af störfum. Alls bárust 13 umsóknir um starfið.
Í tilkynningu á vef SGS segir að Björg hafi starfað sem skrifstofustjóri hjá einu af aðildarfélögum SGS í um 13 ár og þekki því innviði í starfsemi stéttarfélaga mjög vel.
Frá 2018 hefur hún starfað við kennslu í Fjölbrautaskóla Vesturlands ásamt því að gegna stöðu forstöðumanns bókasafns og sjá um skjalavörslu fyrir skólann. Hún hefur einnig starfað sem VIRK-ráðgjafi fyrir öll stéttarfélögin á Akranesi og var einn af fyrstu ráðgjöfum sjóðsins og tók þátt í þróun og uppbyggingu þjónustunnar frá upphafi.
Að auki hefur hún setið sem aðal- og varamaður í stjórn Festu lífeyrissjóðs og átt einnig sæti í verðlagsnefnd búvara á árunum 2015-2017. Þá hefur Björg sinnt hinum ýmsu félags- og sjálfboðaliðastörfum, m.a. umsjón með vikulegu barnastarfi hjá Rauða krossinum.
Samkvæmt tilkynningunni frá SGS hefur Björg lokið meistaranámi í upplýsingafræði (MIS-gráða), ásamt því að vera með viðbótardiplóma í opinberri stjórnsýslu, kennsluréttindi á meistarastigi og starfsréttindi sem grunn- og framhaldsskólakennari. Hún er auk þess með BA-próf í íslensku og stúdentspróf af félagsfræðibraut.