Björgvin Páll Gústafsson handboltamarkvörður sagði frá því í löngu máli á samfélagsmiðlum í morgun að þjóðþekktur einstaklingur hefði komið að máli við sig á dögunum og skorað á hann um að gefa kost á sér til þess að verða borgarstjóraefni í Reykjavík. Af færslu hans má lesa að framboðið, ef af verði, yrði fyrir Framsóknarflokkinn.
„En er ég efni í næsta borgarstjóra í Reykjavík? Ég hreinlega veit það ekki... Ef ég tæki slaginn þá væri það einna helst til þessa að taka þátt í byltingu er kemur að málefnum barna. Það að merkja X við B, fyrir Björgvin og börnin er eitthvað sem hljómar allavega vel,“ segir í niðurlagi færslunnar frá Björgvini Páli.
Hann segir í færslu sinni að maðurinn sem hringdi og hvatti hann til að gefa kost á sér þekki vel til ástríðu Björgvins Páls fyrir málefnum barna. „Það skrýtna er að þessi hugmynd hljómaði einhverra hluta vegna ekki svo galin og ég er virkilega hrærður yfir þeirri trú sem þessi góði vinur hefur á mér,“ segir í færslu Björgvins Páls.
„Hausinn fór eðlilega á fullt og ég hugsaði afhverju viðkomandi héldi að ég gæti orðið góður borgarsjtjóri. Gæti það verið vegna minnar sýnar á hvernig má auka vellíðan barna, bæta skólakerfin okkar og hlúa betur að foreldrum. Eða var það mín saga og mín reynsla sem fékk hann til þess að velta þessari hugmynd upp,“ segir Björgvin Páll, sem í færslu sinni rekur að hann sé „ekki bara handboltakall“ heldur líka „líka 6 ára strákurinn sem beit kennarinn minn, 8 ára strákurinn sem var tekin með hníf í skólanum og lagðir inná BUGL, 12 ára strákurinn sem fékk umsögn í sveit um að ég væri barn sem erfitt væri að elska, 13 ára strákurinn sem heyrði kennarann minn segja „Hann verður aldrei neitt þessi”, strákurinn sem skólakerfið brást, strákurinn sem fékk aldrei greininguna mína og lyfin mín, ég er strákurinn sem ólst upp við erfiðar aðstæður, strákurinn sem íþróttirnar björguðu“ og fleira til.
Kvöldið sem ég lennti á Íslandi eftir EM fékk ég símtal frá þjóðþekktum einstaklingi sem ég ber mikla virðingu fyrir....
Posted by Björgvin Páll Gústavsson on Thursday, February 3, 2022
„Því meira sem ég hugsa þetta því meiri trú hef ég á því að þetta gæti smollið,“ segir einnig í færslu Björgvins um þetta mögulega framboð, sem eins og áður segir virðist hugsað fyrir Framsóknarflokkinn.
Framsókn stillir upp eftir afhroð árið 2018
Framsóknarflokkurinn á í dag ekki einn einasta borgarfulltrúa eftir að hafa fengið einungis fengið 1.870 atkvæði og þar með 3,2 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningunum árið 2018. Fá nöfn hafa til þessa verið nefnd til sögunnar í bollaleggingum fjölmiðla um mögulega uppstillingu Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, en fyrir liggur að flokkurinn mun stilla upp á lista í borginni.
Þó hefur nafni Hrannars Péturssonar, aðstoðarmanns Lilju Alfreðsdóttur ráðherra, skotið upp kollinum í þeirri umræðu, auk þess sem athygli hefur vakið að Karl Garðarsson fyrrverandi alþingismaður flokksins hefur á undanförnu misseri stigið inn í opinbera umræðu um skipulagsmál í Reykjavík.