Björgvin Páll Gústafsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, er hættur við að sækjast eftir sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.
Í stöðuuppfærslu á Facebook segist hann einfaldlega hafa skipt um skoðun. „Þrátt fyrir að stuðningurinn sé mikill innan úr flokknum, þá er mikilvægt að hafa það í huga að þegar maður er á leiðinni á útivöll þá þarf maður að hafa allt liðið á bakvið sig. Með þessari ákvörðun vil ég hjálpa þeim sem mun leiða flokkinn í sinni vinnu. Þetta hefur verið sturlaður tilfinningarússíbani sem að hefur styrkt vilja minn til þess að setja börnin í 1. sæti enn frekar. Ég styrkist einnig í þeirri trú minni að það sé minn tilgangur að vera fyrirmynd og hjálpa öllum að líða betur. Ég mun á næstu dögum setja orkuna í vera fyrir boltum og hjálpa börnunum mínum að líða vel.“
Ég hef skipt um skoðun… og ákveðið sækjast ekki eftir sæti á lista hjá Framsókn í Reykjavík fyrir komandi...
Posted by Björgvin Páll Gústavsson on Tuesday, March 1, 2022
Framsóknarflokkurinn reið ekki feitum hesti frá síðustu borgarstjórnarkosningum. Hann fékk einungis 3,2 prósent atkvæða og náði ekki inn manni í Reykjavík.
Nokkrum dögum eftir að Björgvin Páll birti færslu sína sagði Einar Þorsteinsson, fyrrverandi fréttamaður og stjórnandi Kastljóss á RÚV, að hann hefði fengið fjöldamargar hvatningar til að fara fram fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík og að hann væri að íhuga það alvarlega.
Einar hefur ekki starfað innan Framsóknarflokksins áður en eiginkona hans, Milla Ósk Magnúsdóttir, er aðstoðarmaður Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra og þingmanns Framsóknarflokksins. Einar var formaður félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi á árum áður og var sterklega orðaður við framboð fyrir þann flokk í Kópavogi fyrir skemmstu. Einar og Milla settu hins vegar heimili sitt í Kópavogi á sölu nokkrum dögum fyrir yfirlýsinguna og boðuðu flutninga í Seljahverfið í Reykjavík.