Vefpressan, fyrirtæki Björns Inga Hrafnssonar, hefur keypt útgáfuna Fótspor, sem gaf meðal annars út Akureyri vikublað og Reykjavík vikublað. Þetta kemur fram á Vísi í kvöld.
Ámundi Ámundason var ábyrgðarmaður blaða og auglýsingastjórn Fótspors, en hann segir við Vísi að Vefpressan hafi keypt útgáfuréttinn að blöðunum. Rekstri Fótspors verður hætt en Ámundi mun starfa hjá Vefpressunni. Ekki kemur fram hvað verður um aðra starfsmenn og ritstjóra blaða.
Hann segir Björn Inga hafa haft samband við sig að fyrra bragði og að hann sé mjög ánægður með þá niðurstöðu. Hann sé orðinn sjötugur og þurfi að minnka við sig álag.
Eins og Kjarninn greindi frá fyrr í dag sagði Björn Þorláksson, ritstjóri Akureyrar Vikublaðs, frá því á Facebook-síðu sinni í dag að útgáfu blaðsins yrði hætt.