Blaðamaðurinn og skákmaðurinn Björn Þorfinnsson hefur verið ráðinn nýr ritstjóri DV, en frá þessu er greint í frétt miðilsins í dag. Hann tekur við starfinu af Tobbu Marinósdóttur, sem tilkynnti í marsmánuði að hún ætlaði að hverfa til annarra starfa.
Björn var síðast blaðamaður á Fréttablaðinu, en lauk störfum þar fyrr á þessu ári. Áður hafði hann verið blaðamaður á DV frá árinu 2015 og gegnt stöðu fréttastjóra hjá miðlinum. Hann hefur sömuleiðis verið forseti Skáksambands Íslands.
„Ég ólst upp sem blaðamaður á DV og þykir afar vænt um þennan miðil. Ég er því afar spenntur að fá tækifæri til að móta stefnu og ásýnd DV til framtíðar og vinna með því öfluga fólki sem starfar á miðlinum í dag,“ er haft eftir Birni í frétt DV um ráðninguna.
„Það er mikill akkur fyrir DV að fá Björn Þorfinnsson til starfa. Það er einnig ánægjulegt að hann skuli aftur vera genginn í raðir starfsmanna Torgs. Með ráðningu hans mun DV halda áfram að sækja fram, hvoru tveggja sem frétta- og afþreyingarmiðill“, er haft eftir Birni Víglundssyni forstjóra Torgs, í frétt miðilsins.
Frjáls fjölmiðlun ehf., sem þá var útgáfufélag DV, var sameinað Torgi, eiganda Fréttablaðsins og Hringbrautar í mars árið 2020. Miðillinn er hættur að koma út á prenti, hið minnsta tímabundið.
Vefmiðillinn dv.is er sá þriðji mest lesni hér á landi og eru það einungis Vísir og mbl.is sem standa honum framar er kemur að fjölda daglegra notenda, samkvæmt vefmælingum Gallup.
„Aðsóknin á dv.is er gríðarleg og því er um að ræða ótrúlega sterkan vettvang til þess að koma á framfæri fréttum og sögum fólks sem eiga erindi við samfélagið og hrista jafnvel upp í því. Mitt helsta markmið að freista þess að styrkja fréttahluta miðilsins enn frekar og bjóða lesendum upp á góða blöndu af fréttum og afþreyingarefni,“ er haft eftir nýja ritstjóranum í frétt DV.