Jóhann Páll Jóhannsson, sem sagði upp störfum á DV fyrr í dag, segir að Eggert Skúlason, nýráðinn ritstjóri miðilsins, hafi tilkynnt ritstjórninni að blaðamennska á borð við þá sem tíðkaðist í máli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra yrði ekki liðin á hans vakt. Þetta hafi blaðamönnum verið gert ljóst á ritstjórnarfundi síðastliðinn föstudag, að sögn Jóhanns.Um var að ræða fyrsta ritstjórnarfund Eggerts síðan að hann var ráðinn í starf ritstjóra undir lok síðasta árs.
Jóhann Páll birti facebookfærslu í dag þar sem hann tilkynnti um uppsögn sína. Í henni segir hann m.a. að frá því að nýir eigendur tóku við DV í ágúst hafi gegndarlaust niðurrif átt sér stað. „Nú eru skemmdarverkin á lokastigi. Björn Ingi Hrafnsson, áhrifamaður í Framsóknarflokknum, hefur eignast meirihluta í DV og gert vin sinn úr sama flokki, Eggert Skúlason, að ritstjóra. Síðasta föstudag tilkynnti Eggert á fréttafundi að blaðamennska á borð við þá sem tíðkaðist í máli Hönnu Birnu yrði ekki liðin á hans vakt," segir Jóhann Páll.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrum innanríkisráðherra.
Jóhann Páll og Jón Bjarki Magnússon fengu blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir umfjöllun um lekamálið snemma á síðasta ári. Gísli Freyr Valdórsson, fyrrum aðstoðarmaður Hönnu Birnu, hefur játað að hafa lekið upplýsingum um hælisleitendur til Fréttablaðsins og mbl.is og hlaut dóm fyrir. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér embætti innanríkisráðherra vegna málsins. Því er þó ekki alveg lokið þar sem Umboðsmaður Alþingis mun skila niðurstöðu athugunar á samskiptum Hönnu Birnu og Stefáns Eiríkssonar, fyrrum lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, á næstunni.