Leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, Kevin McCarthy, setti nýtt met í morgun, er hann lauk við lengstu þingræðu sem haldin hefur verið í fulltrúadeildinni svo langt aftur sem heimildir herma.
Þegar hann steig úr ræðustóli klukkan tíu mínútur yfir 5 að staðartíma í Washington hafði hann talað fram og til baka gegn lagafrumvarpi demókrata um aukin fjárútlát til velferðar- og loftslagsmála í heilar 8 klukkustundir og 32 mínútur.
Með málþófi sínu náði McCarthy að koma í veg fyrir að gengið yrði til atkvæða um þessa umfangsmiklu löggjöf Biden-stjórnarinnar í gærkvöldi, en allir þingmenn Repúblikanaflokksins í fulltrúadeildinni eru á móti málinu. Atkvæðagreiðsla fór hins vegar fram í dag – og málið var samþykkt.
Fyrra met sem heimildir eru til um, að minnsta kosti aftur til ársins 1909, átti Nancy Pelosi, þáverandi leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni og nú forseti fulltrúadeildarinnar.
Hún talaði árið 2018 í rúmar átta stundir gegn þáverandi áætlunum Trump-stjórnarinnar þess efnis að fella á brott landvistarleyfi hundruð þúsunda einstaklinga sem komið höfðu ólöglega til Bandaríkjanna á barnsaldri.
Pelosi nýtti sér þá, rétt eins og McCarthy nú, heimild sem leiðtogar flokkanna og forseti fulltrúadeildarinnar hafa í þingsköpum til þess að tala eins lengi og þeir vilja. Í umfjöllunum bandarískra miðla er þetta kallað „töframínútu-venjan“.
Málið færist til Manchin og félaga í öldungadeildinni
Við samþykkt fulltrúadeildarinnar á frumvarpi Biden-stjórnarinnar, sem felur í sér 1,85 billjóna dala útgjöld til velferðar- og loftslagsmála á næsta áratug, færist málið í hendur Öldungadeildarinnar.
Þrátt fyrir að búið sé að skera fyrirhuguð útgjöld vegna frumvarpsins niður um rúman helming, ekki síst vegna deilna innan Demókrataflokksins um hversu miklu fé skuli verja til þessara mála, er enn óvíst um afdrif þess þar.
Þingmennirnir Joe Manchin og Kyrsten Sinema hafa talað eindregið fyrir því að frumvarpið verði allt minnkað að sniðum og dregið verði úr útgjöldum, en Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur þó lýst því yfir að hann hafi trú á því að þau tvö og aðrir þingmenn demókratar muni veita þessari útgáfu stuðning sinn.
Allir þingmenn Demókrataflokksins í öldungadeildinni þurfa að samþykkja frumvarpið til þess að það eigi möguleika og það þýðir að þau Manchin og Sinema hafa í reynd neitunarvald gagnvart öllum efnisatriðum þess.
Joe Manchin hefur látið eftir sér hafa að hann sé ekki ánægður með allt það sem er í frumvarpinu eins og það lítur út í dag. Hann segist til dæmis ekki sáttur með að leiða í lög fjögurra vikna langt launað fæðingarorlof fyrir alla Bandaríkjamenn í frumvarpi sem ekki njóti stuðnings repúblikana – og telur að það eigi að taka það út fyrir sviga.