Ótilgreindur fjöldu fólks er látinn eftir byssumaður skaut og drap fólk í íbúðahverfi í bænum Würenlingen í Sviss, sem tilheyrir kantónunni Aargau, seint í gærkvöldi. Fjöldi hinna látnu hefur ekki verið gerður opinber að öðru leyti en að um marga sé að ræða. Byssumaðurinn er talinn vera á meðal þeirra látnu. Lögreglan á svæðinu mun halda blaðamannafund á næstu klukkutímum og segja nánar frá því sem átti sér stað þar. Frá þessu er greint á vef Svissneska ríkissjónvarpsins SRF. Þó hefur komið fram að morðin eru talin tengjast fjölskyldudeilum og að ekki sé talið að um hryðjuverk sé að ræða.
"Hræðilegur glæpur"
Þar segir að lögreglan í Aargau hafi fundið mörg lík í og við íbúðabyggingu í Würenlingen. Allir hinna látnu eru fullorðið fólk og verið er að bera kennsl á þau. Bernhard Graser, talsmaður lögreglunnar í Aarfau, sagði að "hræðilegur glæpur" hafi átt sér stað. Hann sagði einnig að engin leitaraðgerð væri í gangi og að því er talið nokkuð öruggt að byssumaðurinn sé á meðal þeirra látnu.
Hverfið þar sem morðin voru framin þykir fjölskylduvænt hverfi. Nágranni, sem svissneska dagblaðið Blick ræddi við, sagðist hafa heyrt fjórum skotum hleypt af á mjög skömmum tíma, og svo tveimur í viðbót stutt seinna. Vitnið sagðist ekki hafa heyrt nein öskur frá fórnarlömbunum samkvæmt Blick.