Nýjasta kvikmyndin um ævintýri James Bond, Spectre, verður frumsýnd á heimsvísu í nóvembermánuði næstkomandi. Bíómyndin verður sú 24. í röðinni, sem er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi, nema fyrir þær sakir að á sama tíma og hún verður frumsýnd fellur úr gildi samningur Sony Pictures við Metro Goldwyn Mayer frá árinu 2006 um dreifingu kvikmyndanna um helsta njósnara hennar hátignar.
Sony Pictures leggur allt kapp á að ná nýjum samningi við MGM um dreifingu James Bond myndanna, og þá sérstaklega eftir erfitt tímabil frá því í nóvembermánuði síðastliðnum eða síðan tölvuþrjótar brutust inn í tölvukerfi kvikmyndafyrirtækisins í tengslum við fyrirhugaða frumsýningu á kvikmyndinni The Interview. Eins og flestir eflaust vita er gert stólpagrín að Kin Jung-Un, leiðtoga Norður-Kóreu, í kvikmyndinni, en talið er að tölvuárásin á Sony hafi verið fyrir tilstuðlan yfirvalda í Norður-Kóreu.
„Auðvitað munum við bjóða í dreifingaréttinn, en það munu líka allir aðrir gera,“ segir Tom Rothman, stjórnarformaður Sony Pictures, í samtali við fréttamiðilinn Variety. „Staðreyndin er sú að Sony hefur gengið sérlega vel að vinna með Bond.“
Gengið vel síðustu ár eftir mögur ár á undan
Stjórnarformaður Sony hefur nokkuð til síns máls. Eftir heldur magurt tímabil árin 1995 til 2002, eða á meðan hinn tilþrifalitli Pierce Brosnan gegndi hlutverki Bond, hefur vörumerkið aftur risið til hæstu hæða, eða allt frá því að Sony tók við. Síðasta James Bond myndin, sem skartaði Pierce Brosnan í aðalhlutverkinu, Die Another Day, þénaði til að mynda 431 milljón bandaríkjadali árið 2002. Casino Royale, sem frumsýnd var árið 2006, með Daniel Craig í broddi fylkingar, skilað um 600 milljónum bandaríkjadölum í kassann. Quantum of Solace, sem var frumsýnd árið 2008, þénaði litlu minna eða hátt í 590 milljónum dala.
Fyrir utan það að síðustu bíómyndirnar um breska njósnarann hafa verið mun betri en fyrirrennarar þeirra, að minnsta kosti síðastliðin ár, hefur Sony þótt takast einstaklega vel upp við markaðssetningu á þeim.
Aðdáendur kvikmyndanna um James Bond bíða spenntir eftir að berja nýjustu myndina um njósnarann augum.
Síðasta bíómyndin um breska njósnarann 007 er hins vegar aðsóknarmesta Bond kvikmynd sögunnar. Skyfall skilaði hvorki meira né minna en 1,1 milljarði bandaríkjadala á heimsvísu í kassann. Reiknað er með að nýjasta myndin um James Bond, Spectre, sem er sömuleiðis í leikstjórn Sam Mendes, muni sömuleiðis raka inn seðlunum en spár gera ráð fyrir að myndin muni líka brjóta eins milljarða múrinn.
Talið líklegast að Warner Bros. hreppi hnossið
Hvort Sony Pictures ná að tryggja sér áframhaldandi samstarf við Bond skal ósagt látið. Í Hollywood er hins vegar slúðrað um að Warner Bros. kvikmyndafyrirtækið sé líklegast til að hreppa hnossið. Þar er talin spila inn í vinátta Gary Barber, forstjóra MGM, og Kevin Tsujihara, stjórnarformanns Warner Bros. Þá hafa kvikmyndaverin unnið sameiginlega að stórum verkefnum undanfarið, og nægir þar að nefna þríleikinn um Hobbitann, sem rakaði inn þremur milljörðum bandaríkjadala á heimsvísu.
Missi Sony Pictures dreifingaréttinn gæti kvikmyndafyrirtækið verið í vandræðum. Síðasta kvikmyndin um Spider-Man stóðst engan veginn væntingar fyrirtækisins um miðasölu og fékk slæma útreið hjá kvikmyndagagnrýnendum. Vörumerkið um Lóa er því í vandræðum, en Sony hefur líka alltaf getað stólað sig á væna fúlgu í tengslum við James Bond. Það gæti hins vegar breyst í nóvember, það er að segja ef Bond fer annað.