Eins og áhorfendur þáttanna Ferðar til fjár á RÚV vita þá er það fátt sem Bogi Ágústsson fréttamaður veit ekki. Helgi Seljan, annar umsjónarmanna þáttanna, hefur reglulega truflað Boga við lestur kvöldfrétta og krafist útskýringa á fyrirbærum á borð við hlutabréfavísitölur, vísitölu neysluverðs, viðskiptajöfnuð og gengisvísitöluna.
Í fimmta þætti var Bogi að lesa frétt um vöxt landsframleiðslu þegar Helga þótti nóg komið. „Landsframleiðsla, þjóðarútgjöld? Hver er munurinn á þessu?“
„Það má segja að landsframleiðsla sé verðmæti allrar vöru og þjónustu sem er fullunninn á Íslandi á ákveðnu tímabili, oftast er miðað við ár,“ sagði Bogi.
Munurinn á landi og þjóð
„Munurinn á landsframleiðslu og þjóðarframleiðslu liggur í því að hluti af framleiðslu útlendinga á Íslandi rennur til þeirra. Það er talið með í landsframleiðslu en ekki þjóðarframleiðslu. Á móti kemur að Íslendingar hafa tekjur af starfsemi íslenskra fyrirtækja eða eigna erlendis. Það er talið með þjóðarframleiðslu Íslands en ekki landsframleiðslunni,“ sagði Bogi skýrmerkilega.
Þjóðartekjur Íslands 2000-2014 | Create infographics
Verg landsframleiðsla á Íslandi | Create infographics
Landsframleiðsla á mann
Bogi nefndi einnig hvernig landsframleiðsla er stundum reiknuð á mann. Heildarlandsframleiðslu er þá deilt með íbúðafjöldanum. „Landsframleiðsla á mann er notuð sem mælieining á lífskjör þjóðarinnar,“ sagði Bogi. „Ef að landsframleiðslan eykst um fimm prósent en landsmönnum fjölgar um tvö prósent þá þýðir það að hver og einn landsmaður hefur, eða ætti að hafa, meira fyrir sig,“ sagði Bogi.
Sigríður Benediktsdóttir hagfræðingur útskýrði einnig í þættinum hvers vegna svo oft er litið til landsframleiðslunnar og hagvaxtar þegar lífsgæði eru metin. „ Ástæðan hvers vegna við notum landsframleiðslu svona mikið er sú að hún er ákveðinn mælikvarði á hagsæld. Því meira sem við framleiðum af vöru og þjónustu, því mun meira getum við neytt. Þar af leiðandi notum við breytinguna á landsframleiðslu sem mælikvarða til að sjá breytingu á okkar hagsæld,“ sagði Sigríður.