„Stýrivextir eru þeir vextir sem Seðlabankinn leggur á lán sem bankinn veitir bönkum og sparisjóðum. Ef bankarnir þurfa að greiða Seðlabankanum hærri vexti, þá þurfa bankarnir að rukka þig um hærri vexti,“ sagði Bogi Ágústsson fréttamaður við Helga Seljan í síðasta þætti Ferðar til fjár sem sýndir voru á RÚV. Helgi truflaði Boga við lestur frétta og vildi vita hvað stýrivextir eru. Hægt er að sjá þættina hér.
„Ef stýrivextir hækka þá er Seðlabankinn að nota vextina til þess að draga úr eftirspurn og minnka þenslu í samfélaginu,“ sagði Bogi. Þegar stýrivextir hækka þá versna þau vaxtakjör sem bankarnir geta boðið almenningi og fyrirtækjum í landinu. Það verður því dýrara að taka lán.
„Ef stýrivextir hækka, á ég þá að hætta að eyða peningum,“ spurði Helgi.
„Þú ræður því, og metur hverju þú hefur efni á, en það þýðir að ef þú tekur lán þá þarftu að borga hærra verð fyrir það,“ sagði Bogi.
Stýrivextir eru helsta tæki Seðlabanka Íslands til þess að halda verðbólgu í skefjum. Ef þensla er í samfélaginu og verðbólgan há, þá hækkar Seðlabankinn stýrirvextina. Viðskiptabankarnir og sparisjóðir eiga í viðskiptum við Seðlabankann, fá hjá honum lán, og stýrivextirnir ákveða hversu hagstæð þessi lán eru fyrir bankana. Þessi vaxtakjör hafa síðan áhrif á almenna vexti á markaði, til dæmis á húsnæðislánum og öðrum lánum til almennings og fyrirtækja, vegna þess að ef lánakjör bankans hækka, þá þarf hann að bregðast við með því að hækka vexti á sínum lánveitingum.