Þótt nýting á gistiplássum á Íslandi hafi batnað töluvert í síðasta mánuði, og að íslensk hótel hafi séð mikla fjölgun bókana koma inn bæði til skemmri tíma og fyrir sumarmánuðina, er mikilvægt að draga ekki og sterkar ályktanir af horfum í ferðaþjónustunni á næstu mánuðum miðað við núverandi bókunastöðu. „Bókanir hafa sjaldan eða aldrei verið með jafn sveigjanlegum skilmálum og nú, þær eru fugl í skógi en ekki í hendi. Stríðið í Úkraínu og truflanir á flugsamgöngum sem því mun fylgja, m.a. lokanir á lofthelgi og hækkanir á flugfargjöldum, gætu haft neikvæð áhrif á ferðavilja og seinkað bata greinarinnar.“
Þetta segir í nýju Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands sem birt var fyrir helgi.
Þar kemur fram að hægt hafi á bata ferðaþjónustunnar undir lok síðasta árs í kjölfar útbreiðslu Ómíkron-afbrigðisins en komur ferðamanna höfðu aukist töluvert síðasta sumar. Yfir árið í heild komu tæplega 690 þúsund ferðamenn til landsins, þar af um 90 prósent á seinni helmingi ársins, samanborið við um 480 þúsund manns árið 2020.
Stríðið mun líklega hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna
Í ritinu segir að samkvæmt upplýsingum frá innlendu flugfélögunum hafi lifnað yfir bókunum um miðjan janúar 2021 þegar slakað var á sóttvarnaraðgerðum hér á landi og víða erlendis. „Útlit er fyrir að flugframboð til og frá landinu aukist töluvert í ár miðað við fyrra ár. Icelandair gerir ráð fyrir að auka flugframboð í um 80 prósent af því sem í boði var árið 2019 (35 prósent árið 2021). Þá hefur PLAY bætt fjölda áfangastaða við leiðakerfi sitt og áformar félagið flug til Norður-Ameríku í apríl.“
Viðbúið sé að víðtækar lokanir á lofthelgi margra ríkja hafi neikvæð áhrif á komur ferðamanna til Íslands, einkum frá Asíu. „Hækkun á verði eldsneytis og hrávöru dregur enn fremur úr kaupmætti heimila í þróuðum ríkjum sem getur haft áhrif á ferðavilja og útgjöld hvers ferðamanns gætu orðið minni en ella. Óvíst er að hversu miklu leyti hækkun á verði eldsneytis muni koma fram í farmiðaverði og veltur það m.a. á til hversu langs tíma hækkanirnar muni vara og að hve miklu leyti flugfélög hafa varið sig fyrir verðhækkun á eldsneyti.“
Icelandair Group tapaði 13,7 milljörðum króna á árinu 2021 miðað við gengi krónu í lok þess árs en félagið gerir upp í Bandaríkjadölum. Þar af tapaði félagið 5,1 milljarði króna á síðustu þremur mánuðum ársins. PLAY tapaði 22,5 milljónir Bandaríkjadala, rúmlega 2,9 milljörðum króna miðað við gengi í lok síðasta árs, á árinu 2021. Hækkandi eldsneytisverð hefur haft mikið áhrif á rekstur flugfélaganna tveggja og lita áætlanir þeirra fyrir árið. Icelandair Group er með litlar varnir gegn hækkunum á eldsneyti og PLAY engar.
Skuldavandi og endurskipulagning nauðsynleg
Seðlabankinn bendir einnig á að skuldavandi margra ferðaþjónustufyrirtækja sem enn óleystur.
Greining sem KPMG hafi gert á fjárhagsstöðu greinarinnar, og byggði á ársreikningum ársins 2020, hafi sýnt mikla skuldasöfnun innan hennar. Hluti undirgreina eins og gististaðir, afþreyingar- og hópferðafyrirtæki virðast einna helst þurfa á endurskipulagningu skulda að halda og til viðbótar megi ætla að nokkur uppsöfnuð fjárfestingarþörf hafi myndast í greininni.
Þótt áframhaldandi stuðningsaðgerðir ríkisins muni koma sér vel fyrir ýmis fyrirtæki í greininni, sérstaklega lítil- og meðalstór fyrirtæki, sé mikilvægt er að ferðaþjónustan nái sér aftur á strik á þessu ári eftir að hafa búið við mjög krefjandi rekstraraðstæður í um tvö ár. „Lánastofnanir hafa staðið vel við bakið á fyrirtækjum í gegnum faraldurinn en mikilvægt er að endurskipulagning fyrirtækja í greininni, sem mörg hver eru mjög skuldsett, verði farsæl og að stöndug fyrirtæki geti byggt aftur upp styrk greinarinnar nú þegar takmörkunum vegna faraldursins hefur verið aflétt.“