Íslömsku hryðjuverkasamtökin Boko Haram hafa rænt fjölda manns í Kamerún, nágrannríki Nígeríu, að því er fram kemur í frá breska ríkisútvarpsins BBC. Ekki er vitað nákvæmlega hversu mörgum hryðjuverkasamtökin hafa rænt, en vitað er að fjöldi barna er á meðal þeirra sem hryðjuverkasamtökin hafa rænt.
Issa Tchiroma Bakary, upplýsingamálaráðherra Kamerún, staðfesti við BBC að um 8o hús hefðu verið brennd til ösku og fólki rænt í þorpunum Maki og Mada, nyrst í Kamerún.
Boko Harama hafa farið um þorp í Nígeríu og nú Kamerún með hrikalegu ofbeldi að undanförnu, en talið er að allt að tvö þúsund manns hafi látið lífið í árásum hryðjuverkasamtakanna á mörg þorp í norðausturhluta Nígeríu undanfarna daga og vikur. Hafa mannréttindasamtök gagnrýnt sinnuleysi alþjóðasamfélagsins vegna þessa.
UNICEF á Íslandi gerði þetta hrikalega ofbeldi, sem er ekki síst beint gegn börnum, að umtalsefni á vef sínum. Þar fordæmir Anthony Lake, framkvæmdastjóri UNICEF, ofbeldið. „Allt að 2.000 saklaus börn, konur og eldri borgarar hafa verið myrt í Baga. Í Maiduguri voru ungar stúlkur sendar út í opinn dauðann með sprengjur límdar utan við sig. Og ekki má gleyma þeim 200 stúlkum sem var rænt frá fjölskyldum sínum og enn eru týndar. Þessar fregnir frá Nígeríu ættu að vera í brennidepli. Orðin ein geta ekki tjáð reiði okkar og hneykslan, né linað þjáningar þeirra sem búa við stöðugan ótta við ofbeldi í norðurhluta Nígeríu,“ bætir Lake við. „Þær fréttir sem okkur hafa borist undanfarna daga gefa skýrt til kynna við hverju má búast í framtíðinni í Nígeríu og við eigum ekki að láta þetta viðgangast,“ segir Lake.