Nígeríski hryðjuverkahópurinn Boko Haram hefur svarið Íslamska ríkinu hollustu sína. Þetta kemur fram í myndbandi sem birt hefur verið á netinu. Myndbandið birtist á Twitter síðu Boko Haram. Það er hljóðupptaka og leiðtoginn Abubakar Shekau er talinn sá sem talar.
„Við tilkynnum hollustu okkar við kalífa múslima...og munum hlusta og hlýða á tímum erfiðleika og velgengni, í þrengingum og þægindum, og við munum þola að vera beittir misrétti, og munum ekki deila um stjórnun við valdhafa,“ kemur meðal annars fram í skilaboðum samtakanna. Þá var einnig kallað eftir því að múslimar um allan heim sverðu kalífanum hollustu sína.
Kalífinn er Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Íslamska ríkisins. Hryðjuverkahópar í Miðausturlöndum, Afganistan, Pakistan og annars staðar í Afríku hafa lýst yfir hollustu sinni við hryðjuverkasamtökin sem stjórna nú hluta Íraks og Sýrlands.
Boko Haram er stærsti hryðjuverkahópurinn sem lýsir yfir tryggð sinni við Íslamska ríkið hingað til. Ljóst hefur þótt í nokkurn tíma að tenging væri milli þessara tveggja hryðjuverkasamtaka en óljóst er þó hversu mikil samhæfing verður á milli þeirra í kjölfar þessarar tilkynningar.
Ryan Cummings, sérfræðingur hjá red24, sem hefur fylgst með Boko Haram náið frá árinu 2011, segir við New York Times að yfirlýsingu leiðtoga Boko Haram sé ætlað að senda þeim skilaboð að hryðjuverkasamtökin tvö séu á sömu blaðsíðu. En Boko Haram er ekki einsleitur hópur heldur hagar sér eins og margar litlar einingar, svo það sé of snemmt að segja til um það hvort samtökin muni heyra beint undir Íslamska ríkið.
Boko Haram hefur í sex ár staðið í hernaði til að reyna að mynda íslamskt ríki í norðurhluta Nígeríu. Að minnsta kosti þrettán þúsund manns hafa látist í árásum hryðjuverkasamtakanna. Síðast létust tæplega sextíu manns í fimm sprengjuárásum í og nálægt borginni Maiduguri í gær. Samtökin hafa einnig rænt hundruðum stúlkna sem flestar eru enn ófundnar.