Snörp umskipti hafa orðið í kórónuveirufaraldrinum hér á landi og sömuleiðis í viðhorfum almennings til stöðu mála. Áhyggjur fólks af heilsufarslegum áhrifum COVID-19 á Íslandi hafa vaxið nokkuð og kvíði vegna faraldursins sömuleiðis. Nokkur munur virðist á því hvernig fólk upplifir stöðu mála eftir því hvar það stendur í pólitík, samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup.
Gallup hefur í gegnum faraldurinn safnað gögnum um viðhorf og líðan Íslendinga vegna veirufaraldursins með reglulegum netkönnunum, sem sendar eru út til einstaklinga 18 ára og eldri sem eru í svokölluðum viðhorfahópi fyrirtækisins.
Í nýjustu mælingunni, sem gerð var dagana 21. júlí til 2. ágúst, sést að hlutfall þeirra sem óttast frekar mikið eða mjög mikið að smitast af COVID-19 fer úr u.þ.b. tíu prósentum upp í um 30 prósent landsmanna og hefur ekki verið viðlíka hátt síðan í lok mars og byrjun apríl á þessu ári.
Svipað hlutfall áhyggjufullra og í fyrstu bylgjunni
Þá segist meirihluti, eða 55 prósent, hafa frekar miklar eða mjög miklar áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum COVID-19 á Íslandi. Athygli vekur að þetta eru svipaðar tölur og voru að mælast í könnunum Gallup þegar fyrsta bylgja faraldursins, í mars og apríl 2020, var að ganga yfir.
Þá var enginn bólusettur gagnvart COVID-19, en nú eru tæplega 90 prósent íbúa landsins yfir 16 ára fullbólusett og ljóst er að bólusetningar virka vel til þess að koma í veg fyrir alvarleg veikindi af völdum veirunnar.
Rúmlega 20 prósent aðspurðra í könnun Gallup segjast finna fyrir frekar miklum, mjög miklum eða jafnvel gífurlega miklum kvíða vegna COVID-19 og er það töluverð aukning frá síðustu mælingu, sem gerð var dagana 2.-12. júlí. Hlutfall þeirra sem segjast í sjálfskipaðri sóttkví vegna veirunnar helst í 4 prósentum, rétt eins og í síðustu mælingu Gallup.
Kjósendur VG virðast hafa mestar áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum
Í niðurstöðunum frá Gallup má sjá að væntanlegir kjósendur Vinstri grænna virðast líklegri til að hafa miklar áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum COVID-19 en kjósendur annarra flokka, en alls sögðust 71 prósent þeirra sem hyggjast kjósa VG hafa frekar miklar eða mjög miklar áhyggjur af áhrifum COVID-19 á heilsu landsmanna.
Tekið skal fram að munurinn á milli flokka er ekki í öllum tilfellum tölfræðilega marktækur, en hvað áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum COVID-19 varðar sögðust 60 prósent væntra kjósenda Miðflokks, 59 prósent kjósenda Samfylkingar og 57 prósent kjósenda Pírata sem svöruðu könnuninni að þeir hefðu frekar miklar eða mjög miklar áhyggjur. Innan við helmingur væntra kjósenda Viðreisnar og Framsóknarflokks sögðust að sama skapi hafa miklar áhyggjur af áhrifum COVID-19 á heilsu landsmanna og 52 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks.
Að sama skapi sögðust 42 prósent þeirra svarenda sem ætla kjósa Vinstri græn óttast mikið að smitast af COVID-19, en einungis 21 prósent þeirra sem hafa í hyggju að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Væntir kjósendur VG voru líka líklegastir til að segjast finna fyrir kvíða vegna veirufaraldursins, en alls sögðu 34 prósent þeirra að svo væri.
Þeir sem eldri eru hafa meiri áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum COVID-19 en yngri aldurshópar, en 67 prósent þeirra sem eru yfir 60 ára aldri sögðust hafa miklar áhyggjur á meðan að hlutfallið var um og yfir 50 prósent í yngri aldurshópum.
Meirihluta finnst hæfilega mikið gert út hættunni
Frá því að faraldurinn fór af stað hér innanlands í fyrra hafa aldrei verið fleiri sem telja of mikið gert úr þeirri heilsufarslegri hættu sem stafar af COVID-19 á Íslandi, en í þessari nýjustu mælingu Gallup segjast samtals 17 prósent að aðeins of mikið eða allt of mikið sé gert úr hættunni. Að sama skapi telja samtals 22 prósent landsmanna að verið sé að gera aðeins eða jafnvel allt of lítið úr hættunni.
Flestir, eða 61 prósent aðspurðra, telja þó að hæfilega mikið sé gert úr hættunni. Væntanlegir kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru líklegastir til að telja of mikið gert úr hættunni, en um 29 prósent sögðust vera á þeirri skoðun og 22 prósent væntra kjósenda Viðreisnar. Innan við tíu prósent kjósenda bæði Samfylkingar og Vinstri grænna töldu að svo væri.
Að sama skapi sögðu 21 prósent væntra kjósenda Sjálfstæðisflokks að þeir teldu að almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld væru að gera of mikið til að bregðast við COVID-19. Hlutfall væntra kjósenda Miðflokksins sem var á þessari skoðun var 19 prósent og 16 prósent þeirra sem gáfu til kynna að þeir ætluðu að kjósa Framsóknarflokkinn sömuleiðis. Hlutfall væntra kjósenda annarra flokka sem taldi svo vera var undir tíu prósentum.