Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingar og formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir að sér þyki leitt að sjá neikvæðar athugasemdir stórs aðila eins og fasteignafélagsins Reita við uppbyggingu smáhýsa fyrir heimilislausa í Laugardalnum.
Kjarninn fjallaði fyrr á þessu ári um umsagnir sem Reitir og fleiri aðilar sendu inn til skipulagsyfirvalda vegna málsins í fyrra en í mars á þessu ári var deiliskipulag reitsins sem um ræðir auglýst á ný, með smá breytingum. Fréttablaðið fjallaði um athugasemdir Reita við breytt skipulag á forsíðu sinni í dag, en efnislega eru þær nánast hinar sömu og sendar voru inn í fyrra.
Reitir áskilja sér rétt til þess að krefjast bóta eða afsláttar frá borginni verði smáhýsin byggð.
Heiða Björg minnir á að þrátt fyrir að áform hafi lengi legið fyrir um byggingu smáhýsanna hafi Reitir skrifað undir samkomulag við borgina um uppbyggingu um 440 íbúða á hinum svokallaða Orkureit í mars síðastliðnum. „Ef það á að byggja upp 440 íbúðir hinumegin við götuna, þá mun örugglega einhver flytja þar inn sem á við vímuefnavanda að stríða,“ segir borgarfulltrúinn, sem segir Reykjavíkurborg vera allskonar, fyrir allskonar fólk.
Hún segir miður að sjá viðhorf eins og þau sem birtast í athugasemdum Reita og telur að þar birtist „gamaldags viðhorf til fólks.“
„Fólk lendir í vanda út af mörgum ástæðum, gott samfélag er alltaf tilbúið að taka á móti fólki og veita því tækifæri,“ segir Heiða Björg og bendir á að smáhýsin séu einungis einn kostur sem sé í boði fyrir skjólstæðinga borgarinnar, en einnig kaupi borgin íbúðir í fjölbýlishúsum fyrir fólk í viðkvæmri stöðu.
Ákveðið var að fara í tilraunir með byggingu smáhýsa fyrir heimilislausa á nokkrum stöðum í Reykjavík í ljósi jákvæðrar reynslu sem fengist hafði af þessu búsetuformi í Danmörku, en áform um byggingu þeirra hafa þó víða mætt harðorðum athugasemdum bæði einstaklinga og fyrirtækja í grenndinni, sem mörg leggja áherslu á að finna ætti úrræðunum stað í öðrum hverfum – fjarri sér.
Heiða Björg segir að í Danmörku sé ef til vill kominn meiri þroski í umræðuna og meira umburðarlyndi fyrir því að fólk sé fjölbreytt. Hún segir að borgaryfirvöld reyni að koma sjónarmiðum um að mikilvægt sé að sinna mismunandi hópum borgarbúa áleiðis í samskiptum sínum við uppbyggingaraðila sem og aðra, „með þeirri stefnumótum sem við stöndum fyrir og í okkar samþykktum. Við reynum alltaf að stuðla að sátt og góðum samskiptum við alla aðila.“
Forstjóri taldi orðalag „pent“ og „diplómatískt“
Þegar Kjarninn fjallaði um vænta uppbyggingu á Orkureitnum í mars síðastliðnum sagði Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, að athugasemdir fyrirtækisins hefðu verið „verið málefnalegar á alla kanta“ og að það hefði verið „oftúlkun“ að lesa þær sem svo að Reitir hafi verið að hóta því að hætta við uppbygginguna á Orkureitnum ef borgaryfirvöld héldu sig við að setja upp smáhýsi fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs í grenndinni.
Forstjórinn sagðist telja að í umsögn Reita, sem var nær hin sama og send var inn um breytt skipulag, hafi verið „pent, diplómatískt orðalag um að biðja menn að hugsa sig vel um,“ en í nýrri umsögn Reita segir að fyrirtækið áskilji sér rétt til þess að endurskoða áform sín á reitnum, eða jafnvel krefjast afsláttar eða bóta frá borginni, ef af uppbyggingu nokkurra lítilla húsa fyrir fólk í viðkvæmri stöðu yrði, handan Suðurlandsbrautarinnar.
„Einhversstaðar verður að koma þessu fyrir og mín persónulega skoðun er sú að kannski nálægðin við helsta leikvang ungra barna og húsdýragarðinn og þar sem mikið íþróttastarf fer fram hjá Þrótti og Ármanni sé nú ekki alveg heppilegasti staðurinn, en við sjáum bara til hvernig þetta fer allt saman,“ sagði Guðjón við Kjarnann í mars.